Elsa Nielsen, grafískur hönnuður og myndlistarmaður, hefur verið útnefnd Bæjarlistamaður Seltjarnarness. Hún er tuttugasti Seltirningurinn til að hljóta nafnbótina.
Í kjölfar tilnefningarinnar hefur verið opnuð sýning á verkum Elsu í
Gallerí Gróttu, sem stendur til 5. febrúar.
Verkin sem eru til sýnis eru dagbókarfærslur sem Elsa vann á einu ári, en hún skrásetti líf sitt með því að teikna eina mynd á dag og birti á Instagram og Facebook undir merkinu #einádag.
Elsa Nielsen, bæjarlistarmaður Seltjarnarness 2016.
Í kynningu segir:
„Menningarnefnd Seltjarnarness var einróma í vali á Bæjarlistamanninum 2016. Elsa hefur sýnt að hún er vel að nafnbótinni komin og Seltirningar mega vera stoltir af að eiga jafn hæfileikaríkan einstakling innan sinna raða. Auk nafnbótarinnar hlýtur Bæjarlistamaðurinn verðlaunafé að upphæð einni milljón króna. Við útnefninguna tilkynnti Elsa að nafnbótinni fylgdi mikill heiður og að eitt af verkefnum hennar á árinu væri að miðla og vinna með skólabörnum á Nesinu.“
Viðfangsefni Elsu eru fjölbreytt og hafa hlotið verðskuldaða athygli hvort sem er á sviði grafískrar hönnunar, merkjahönnunar, auglýsingaherferða, málaralistar, stafrænnar myndvinnslu, teikninga, myndskreytinga, frímerkjahönnunar eða bókaútgáfu.
Nánar
hér.
Gallerí Grótta er til húsa á Eiðistorgi, 2. hæð og er það opið mánudaga-fimmtudaga kl. 10-19 og föstudaga kl. 10-17. Fyrsta laugardag sýningarinnar, 16. janúar verður enn fremur opið frá kl. 11-16.
Fyrrum bæjarlistamenn Seltjarnarness eru:
Helgi Hrafn Jónsson, tónlistarmaður 2015
Ari Bragi Kárason, trompetleikari 2014
Sigríður Heimisdóttir, hönnuður 2013
Jóhann G. Jóhannsson, leikari 2012
Birna Hallgrímsdóttir, píanóleikari 2011
Freyja Gunnlaugsdóttir, klarínettuleikari 2010
Ragnheiður Steindórsdóttir, leikkona 2009
Kristín Gunnlaugsdóttir, myndlistarkona 2008
Jóhann Helgason, tónlistarmaður 2007
Sigríður Þorvaldsdóttir, leikari 2006
Auður Hafsteinsdóttir, fiðluleikari 2005
Margrét Helga Jóhannsdóttir, leikkona 2004
Ásbjörn Morthens (Bubbi), tónlistarmaður 2002
Messíana Tómasdóttir, myndlistarkona 2001
Rúna Gísladóttir, myndlistarkona 2000
Guðrún Einarsdóttir, listmálari 1999
Ragna Ingimundardóttir, leirlistakona 1998
Herdís Tómasdóttir, veflistakona 1997
Gunnar Kvaran, sellóleikari 1996