Fréttir

6.1.2016

Arkitektafélag Íslands skorar á stjórnvöld



Stjórn Arkitektafélags Íslands sendir frá sér grein varðandi breytingartillögu fjárlaganefndar – um skilyrði um að hafa teikningu Guðjóns Samúelssonar til hliðsjónar við hönnun nýs skrifstofuhúsnæðis Alþingis.

Greinina má lesa í heild sinn hér fyrir neðan:


Ítrekuð áskorun til stjórnvalda um samtal

Þingsályktunartillaga Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, sem fjallar um hvernig minnast eigi aldarafmælis fullveldis Íslands var kynnt í fjölmiðlum þann 1. apríl síðast liðinn. Margir töldu að um aprílgabb hefði verið að ræða, en einn liðurinn í tillögunni fól í sér að nýtt skrifstofuhúsnæði Alþingis yrði hannað með aldargamla útlitsskissu Guðjóns Samúelssonar heitins til hliðsjónar. Pétur Ármannsson arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun hafði eftirfarandi um málið að segja í viðtali við mbl.is í apríl s.l.: „….Þetta er því allt sam­an hægt, en þetta er spurn­ing um það að bygg­ing­in var teiknuð fyr­ir allt annað hlut­verk, í allt öðru sam­fé­lagi og menn­ing­ar­legu sam­hengi. Vilja menn að það sé vitn­is­b­urður um árið 2015 að byggt sé eft­ir hundrað ára gam­alli til­lögu? Ég er á þeirri skoðun að það liggi ekki beint við að nota svona gamla teikn­ingu bók­staf­lega.“

Nú, þegar þetta er skrifað er stjórnarmeirihlutinn búin að samþykkja á Alþingi breytingartillögu fjárlaganefndar þess efnis að verja eigi 75 milljónum króna til undirbúnings og hönnunar á 4.500 fermetra skrifstofubyggingu fyrir Alþingi, sem taka á mið af teikningu Guðjóns Samúelssonar.

Setjum hlutina í samhengi og hverfum 100 ár aftur í tímann. Ímyndum okkur að fortíðarhyggja hefði ráðið ríkjum í byggingalist um 1918 og horft hefði verið til 19. aldarinnar. Þáverandi stjórn hefði sett skilyrði um gamlan stíl í útliti bygginga og nýjungum og hugviti þálifandi arkitekta hafnað, þ.m.t. hugmyndum Guðjóns Samúelssonar. Að halda aftur af þróun og útiloka framfarir getur aldrei verið góður útgangspunktur, hvorki í mannvirkjagerð né á öðrum sviðum. Okkur ber skylda til þess að standast kröfur samtímans um öryggi, útlit, tækni, sjálfbærni og ekki síst ánægju og vellíðan notenda bygginga. Gott og nærtækt dæmi um velheppnaða nýbyggingu samþætta gömlum byggingum er einmitt viðbygging við Alþingishúsið eftir arkitekta hjá Batteríinu. Byggingin er nútímaleg, en fellur vel að umhverfi sínu í einfaldleika sínum og efnisvali.

Þrjú fagfélög létu sig varða þetta mál og önnur sem voru til umræðu í vor. Arkitektafélag Íslands, Félag íslenskra landslagsarkitekta og Skipulagsfræðingafélag Íslands sendu frá sér yfirlýsingu þar sem m.a. var bent á að tillagan um að gefa arkitektum samtímans tækifæri á að “hanna með Guðjóni Samúelssyni” væri ófagleg og ekki í samræmi við kröfur sem gerðar eru í mannvirkjagerð í dag. Stjórnvöldum var um leið boðið til samtals um okkar byggða umhverfi. Hvorki boði fagfélaganna um faglegt og uppbyggilegt samtal, né fjöldi góðra greina sem vörpuðu ljósi á málið, hefur verið tekið alvarlega af stjórnvöldum.

Við skorum á stjórnvöld að endurskoða ofannefnda breytingartillögu um leið og við ítrekum boð um samtal er varðar umhverfi okkar í sveit og borg. Þverfaglegt samstarf er lykill að árangri  þegar skapa á betra umhverfi fyrir samfélagið allt.


Stjórn Arkitektafélags Íslands



















Yfirlit



eldri fréttir