Fréttir

26.11.2015

Þriðja tölublað Neptún Magazine komið út



Forsíða 3.tölublaðs Neptún

Neptún er íslenskt prentað tímarit sem fjallar um myndlist, hönnun og hverskyns skapandi fyrirbæri. Tímaritið kom fyrst út í janúar 2014 og hefur síðan þá náð góðum árangri. Efnistök tímaritsins eru fjölbreytt en meginkjarninn er ávallt íslenska grasrótarsenan og upprennandi listamenn og hönnuðir.

Tímaritið leggur einnig áherslu á að fjalla um þá sem hafa skarað framúr á sínu sviði, en í þriðja tölublaðinu birtist viðtal við Steinu Vasulku sem er þekkt fyrir að vera einn helsti frumkvöðull vídjólistar á heimsvísu.
Auk Steinu birtast umfjallanir og viðtöl við grasrótarlistamenn líkt og listarýmið Ekkisens, After 6 Tattú, gjörninga- og rapphljómsveitina I:B:M, peysuhöfundinn Ýrúrarí, grafíska hönnuðinn Sigurð Oddson, og fleiri.

Á bak við blaðið standa Kolbrún Þóra Löve og Helga Kjerúlf. Kolbrún stundar myndlistarnám í Amsterdam og Helga er búsett í Berlín þar sem hún leggur stund á tónlistarnám.

Tímaritið er selt í öllum helstu bókabúðum og listasöfnum landsins og verður fáanlegt í verslunum. Auk þess er því dreift í bókabúðir og söfn víða um heim, til dæmis í New York, Berlín, Los Angeles, Amsterdam, Singapore, Tokyo, Dubai, o.fl. Neptún hefur tekið þátt í bókamessunum Berlin Art Book Fair og Basel Art Book Fair, og árið 2014 fékk tímaritið verðlaun FÍT fyrir bókahönnun auk “Looking forward to more” verðlaun Reykjavík Grapevine.

Í desember næstkomandi mun tímaritið svo taka þátt í Berlin Art Book Fair í annað sinn, en bókamessan verður haldin á nýlistasafninu Hamburger Bahnhof í þetta skiptið.

Nánari upplýsingar og sýnishorn úr tímaritinu má finna á www.neptun.is.
















Yfirlit



eldri fréttir