Hönnunarverðlaun Íslands voru afhent í annað sinn þriðjudaginn 24. nóvember, við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum. Ríflega 100 tilnefningar bárust dómnefnd sem tilnefndi fimm verkefni sem þóttu sigurstranglegust. Verkefnið sem þótti skara framúr að mati dómnefndar og hlýtur Hönnunarverðlaun Íslands 2015 er sýningin Eldheimar – gosminjasýning í Vestmannaeyjum.
Hönnunarverðlaun Íslands 2015 eru peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 krónur, veitt af iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Í ár var einnig veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2015, þá viðurkenningu hlaut fyrirtækið
Össur.
Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að verðlaununum, í samstarfi við
Hönnunarsafn
Íslands,
Listaháskóla Íslands,
Samtök iðnaðarins og
Samtök
atvinnulífsins.
Axell Hallkell Jóhannesson, sýningahönnuður, tók við verðlaununum fyrir hönd Eldheima.
Hönnunarverðlaun Íslands eru þýðingarmikil fyrir íslenskt
hönnunarsamfélag. Þótt vægi hönnunar í menningu okkar, samfélagi og
viðskiptalífi sé að aukast er mikilvægt vekja athygli og dýpka skilning á
gildi góðrar hönnunar.
Sýningin
Eldheimar, er verk Axels Hallkells Jóhannesssonar sýningarhönnuðar,
Gagarín sem hannaði gagnvirka sýningarhluta, arkitektsins
Margrétar Kristínar Gunnarsdóttur og
Lilju Kristínar Ólafsdóttur landslagsarkitekts.
Mynd frá sýningunni Eldheimar, fleiri myndir á verdlaun.honnunarmidstod.is
Í tilkynningu frá dómnefnd segir: „Sýningin miðlar einstökum atburði í náttúrusögu Íslands með framúrskarandi hætti. Sýningin er til vitnis um hugmyndaríkar og vel útfærðar leiðir til að ná til gesta með öflugum sjónrænum og gagnvirkum hætti. Verkefnið er einstaklega metnaðarfullt og gildi þess ótvírætt þegar litið er til þverfaglegs samstarfs hönnuða og arkitekta.“
Besta fjárfestingin 2015
Þorvaldur Ingvasson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Össur á afhendingu verðlaunanna.
Í ár var einnig veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2015. Fyrirtækið sem hlýtur viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2015 er alþjóðlega heilbrigðistæknifyrirtækið
Össur.
Össur hefur allt frá stofnun lagt áherslu á, fjárfest í og skilgreint
hönnun sem einn af meginþáttum þróunarferlisins. Þá hefur fyrirtækið
hvatt starfsfólk sitt til að keppa stöðugt að framförum og taka áhættu.
Árangurinn er óumdeildur.
Mynd: Össur
Myndir frá viðburði eru á
Facebook síðu Hönnunarverðlauna Íslands.
Smelltu hér til að sjá hverjir voru einnig tilnefndir til Hönnunarverðlauna Íslands 2015.