Nýlega kom út bókin MÓTUN FRAMTÍÐAR, ævi- og starfssaga Trausta Valssonar. Persónusagan er þó ekki í forgrunni, heldur þeir straumar og stefnur sem ríkt hafa í skipulagi og hönnun sl. 50 ár.
Í kynningu segir: „Þar sem Trausti lauk prófi bæði í arkitektúr og skipulagi við háskóla í Berlín og Berkeley á miklum umbyltingatímum í þessum fögum – og kynntist helstu hugmyndafræðingum – á hann auðvelt með að lýsa hvað hefur helst mótað breytingarnar á síðustu hálfri öld. Bókin má því kallast þróunar- og hugmyndasaga skipulags og hönnunar.
Jafnframt segir Trausti frá helstu skipulags- og rannsóknaverkefnum starfsævi sinnar í bókinni. Helstu þemu þar eru þróun skipulags í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu, Íslandsskipulag og byggðamál, sem og breytingar á þróun byggðar í heiminum með hnattrænni hlýnun“
Bókin er með um 700 myndum. Henni fylgir mynddiskur með filmuefni í tíu
stuttmyndum, úr skipulags- og hönnarsögu á Íslandi, þ.e.a.s. efni sem
tengist ævi Trausta. Starfslok hans sem prófessors við HÍ um áramótin
2015 -´16, eru vegna sjötugsafmælis hans þá.
Ummæli um bókina:
„Bókin er verðmæt vegna þess að hún er einlæg, afhjúpandi og opinská...“ „Hún er boðberi, grundvölluð á upplýsingum, þekkingu og visku!“
Goddur – Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor við Listaháskóla Íslands.
„Í þessari bók horfir helsti framtíðarhugsuður þjóðarinnar, Trausti Valsson, í gagnstæða átt.“ „… skyldulesning fyrir námsmenn og alla sem áhuga hafa á hugmyndasögu skipulags og mótun manngerðs umhverfis.“
Pétur H. Ármannsson, arkitekt.
„Trausti skapar kerfi og ferilshugsun við hina fjölhliða hönnun sína... Þar kemur hann böndum á frjóa skapandi hugsun og byggir ofan á með rökrænni aðferð, sem er undirstaða framúrskarandi hönnunar.“ „… Frásagnir Trausta og myndir á DVD-diski sem fylgir bókinni, eru mjög upplýsandi.“
Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands
„Bókin er því ekki aðeins fróðleikur um söguna heldur einnig leiðarvísir fram á við, sem sýnir okkur mikilvægi þess að hugsa langt fram í tímann…“.
Guðmundur Freyr Úlfarsson PhD, prófessor í samgönguverkfræði við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild HÍ
„…þar valtar hann hressilega yfir módernista í arkitektúr (kassastefnumenn), en hampar klassískri og þjóðlegri byggingarlist…“.
Birgir Jónsson, dósent í jarðverkfræði við UB-deild Háskóla Íslands
„Í mínum huga er Trausti frumlegasti hugsuður sem Ísland hefur átt þegar kemur að skipulagsmálum; stórra hugmynda, sem eins og sjái fram í tímann, ekki bara fyrir næsta horn, heldur það þar-næsta líka.“
Hrafn Gunnlaugsson, kvikmyndahöfundur
Um Trausta Valsson
Trausti lauk námi í arkitektúr og skipulagi frá TU Berlín 1972. Starfaði við skipulag Reykjavíkur m.a. við Grænu byltinguna og gerð aðalskipulags svæðana NA við Grafarvoginn.
Árið 1987 lauk hann doktorsnámi í umhverfisskipulagi við UC Berkeley. Fékk hlutadósentsstöðu við Verkfræðideild HÍ, og varð síðan fyrsti prófessor í skipulagi við íslenskan háskóla.
Trausti hefur verið virkur í mótun hugmynda um framtíðina, skipulag og hönnun. Þessu hefur hann miðlað með 150 greinum og 12 bókum. Einnig hefur hann tekið mikinn þátt í opinberri umræðu.
Trausti hefur fengið verðlaun í mörgum samkeppnum og margskonar aðrar viðurkenningar.