Fréttir

9.9.2015

Ráðstefna Gæðaráðs íslenskra háskóla hjá Listaháskóla Íslands



Gæðaráð íslenskra háskóla boðar til ráðstefnu þar sem sérstaklega verður til umfjöllunar nýjasta úttekt ráðsins á gæðum náms við Listaháskóla Íslands.

Ráðstefnan er öllum opin og verður haldin miðvikudaginn 16. september kl. 9:00 í Listaháskóla Íslands, Þverholti 11.

Í úttektinni var gefin einkunn, annarsvegar hvað varðar akademískt starf og hins vegar námsumhverfi. Listaháskólinn nýtur trausts Gæðaráðsins og hlýtur hæstu einkunn sem háskóli getur fengið við fyrstu úttekt samkvæmt núverandi kerfi.
 
Í úttektarskýrslunni var bent á mikilvægi þess fyrir íslenskt samfélag hversu fjölbreytt svið listgreina starfsemi Listaháskólans spannar. Háskólinn þykir hafa haft víðsýni að leiðarljósi og lagt áherslu á sjálfstæða hugsun og sköpunargáfu í þróun skólastarfsins. Úttektarnefndin bendir einnig á mikilvægi þess að Listaháskólinn hafi forgangsraðað í þágu náms og kennslu á tímum niðurskurðar og tekið skýra afstöðu með rannsóknum og nýsköpun, þrátt fyrir mótbyr.

Þá er lýst ánægju með þær ráðstafanir sem háskólinn hefur gert til að styrkja rödd nemenda innan stjórnsýslu hans. Í úttektinni er einnig tekið til þess hversu góður grunnur námið hefur reynst nemendum fyrir framhaldsnám erlendis og síðast en ekki síst fær háskólinn hrós fyrir lausnamiðaða stefnu í húsnæðismálum þrátt fyrir þær bágbornu aðstæður sem hann hefur búið við á því sviði frá stofnun.
 
















Yfirlit



eldri fréttir