Fréttir

20.8.2015

Málþing um sjónlist fyrir börn og unglinga



Myndlistaskólinn í Reykjavík stendur fyrir málþingi um sjónlist fyrir börn og unglinga, föstudaginn 28. ágúst frá kl. 9:00 - 14:00.

Við upphaf skólaársins efnir Myndlistaskólinn í Reykjavík til eins dags málþings um kennslu í sjónlist fyrir börn og unglinga í samstarfi við finnska skólann Arkki School of Architecture for Children and Youth. Flutt verða spennandi erindi á vegum skólanna tveggja, með sérstaka áherslu á listræna og kennslufræðilega nálgun að skapandi kennslu, auk kynningar á völdum námskeiðum og smiðjum úr ranni skólanna, sem kveikja vonandi margvíslega neista og veita innblástur í starf myndmenntakennara (sjá dagskrá fyrir neðan).

Myndlistaskólinn í Reykjavík (stofnaður 1947) heldur úti mjög fjölbreyttu starfi í kennslu á sviði sjónlista. Auk námskeiða fyrir almenning, listnámsbrautar á framhaldsskólastigi, sjónlistadeildar sem undirbúnings fyrir frekara háskólanám og diplómadeilda á háskólastigi er starfrækt kröftugt starf fyrir börn og unglinga, bæði innan veggja skólans, í samstarfi við leik- og grunnskóla borgarinnar og erlenda skóla - að jafnaði um 1500-2000 nemendur á ári.

Arkki School of Architecture for Children and Youth (stofnaður 1993) er skóli sem sérhæfir sig í kennslu byggingarlistar og hönnunar undir formerkjum þríðvíðra sjónlista fyrir börn og ungt fólk. Auk fjölbreyttra námskeiða, sumarbúða og smiðja, skipuleggur skólinn endurmenntunarnámskeið fyrir kennara við grunnskóla og leikskóla og hefur staðið fyrir alþjóðlegum ráðstefnum um efnið. Við skólann eru um 1500 nemendur á ári. (www.arkki.net)

Málþingið er öllum opið, og eru myndmennta- og listgreinakennarar sérstaklega velkomnir.

Frítt er inn, og léttar veitingar eru í boði skólans, en nauðsynlegt er að skrá þátttöku í síðasta lagi á miðvikudaginn 26. ágúst í netfangið barna@myndlistaskolinn.is

Málstofan fer fram á ensku.

Dagskrá

kl. 9.00 Setning

kl. 9.10 Arkki / Pihla Meskanen arkitekt og skólastjóri : kynning á starfi finnska skólans Arkki School of Architecture for Children and Youth, listrænni og kennslufræðilegri nálgun og verkefnum í byggingarlist og hönnun fyrir börn og unglinga. www.arkki.net

kl. 9.40 Myndlistaskólinn í Reykjavík / Sigurlína Osuala deildarstjóri barnadeildar og Ína Salóme myndlistarmaður og listgreinakennari: kynning á starfi Myndlistaskólans, með áherslu á námskeið í sjónlistum fyrir börn og unglinga. www.myndlistaskolinn.is

kl. 10.10 Kaffihlé

kl. 10.40 Arkki / Niina Hummelin arkitekt og yfirkennari (leading pedagogue): "Arkki Kids Creating the Future" - innsýn í valin námskeið úr starfi skólans

kl. 11.10 Myndlistaskólinn í Reykjavík / Margrét Blöndal og Brynhildur Þorgeirsdóttir myndlistarmenn og listgreinakennarar: "Tilfæringar" - námskeið fyrir blind og sjónskert börn

kl. 11.40 Hádegisverður

kl. 12.30 Arkki / Sini Koivisto arkitekt og listgreinakennari : "Igloo - colourful snowcastles" - utandyra smiðja fyrir börn og foreldra þeirra

kl.13.00 Myndlistaskólinn í Reykjavík / Elsa D. Gísladóttir myndlistarmaður og listgreinakennari: Leikskólasamstarf - leiksmiðja rýmis, vatns, ljóss og lita

kl. 13.30 Kynnisferð um Myndlistaskólann




















Yfirlit



eldri fréttir