HönnunarMars er handan við hornið og því ekki seinna vænna en að kynna einkenni hátíðarinnar í ár!
Við sköpun einkennis HönnunarMars 2015 var sóttur innblástur í staðsetningu og líflegt mannlíf viðburðarins. Reykjavík í fullum skrúða HönnunarMars er túlkuð með einföldum teikningum af hinum ýmsu kennileitum borgarinnar og iðar hún af lífi með fjölbreytilegri mannflóri.
Í einföldum myndheimi byggðum á grunnformum og óraunverulegum hlutföllum er leitast við að leggja áherslu á að allt í umhverfi okkar er hannað, jafnt byggingar, klæðnaður, hlutir og gatnakerfi. Þannig tekur öll þjóðin þátt í hátíð hönnuða á einn eða annan hátt.
Þeir Jónas Valtýsson og Ármann Agnarsson eru hönnuðir einkennisins, en þeir áttu einnig einkennið fyrir HönnunarMars árið 2013.
Vinnustofa Erlu & Jónasar er hönnunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í að skapa myndaheima í kringum hugtök og herferðir. Stofan var stofnum árið 2012 af hjónunum Jónasi Valtýssyni, grafískum hönnuði (LHÍ 2008) og Erlu Maríu Árnadóttur, myndskreytara (IED 2008) . Kúnna þeirra er helst að finna í tónlistar- og menningargeiranum og er þar helst að nefna Ólaf Arnalds, Dranga, Pétur Ben, Ethan Johns, Rauða Krossinn, Listasafn Einars Jónssonar og Þjóðminjasafnið.
Ármann Agnarsson er sjálfstætt starfandi grafískur hönnuður og stundakennari í Listaháskóla Íslands. Hann lauk BA námi í LHÍ 2004 en hafði áður numið prentsmíði og starfað sem slíkur um árabil. Ármann hefur unnið að fjölmörgum hönnunarverkefnum í samstarfi við ýmsar menningarstofnanir svo sem Hafnarborg, Listasafn Reykjavíkur, Spark Design Space, Nýlistasafnið, Listaháskóla Íslands og einnig fjölmarga listamenn.
HönnunarMars er stærsta sameiginlega verkefni íslenskra hönnuða ár hvert
og um leið stærsta innlenda og alþjóðlega kynningarverkefni
Hönnunarmiðstöðvar.
HönnunarMars 2015 fer fram dagana 12.-15. mars.
Nánari upplýsingar á
www.honnunarmars.is