Miðvikudaginn 25. febrúar kl. 12.10 halda arkitektarnir Kristján og Kristján fyrirlestur um eigin verk í fyrirlestraröð Hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, SNEIÐMYND í Þverholti 11, fyrirlestrarsal A.
Kristján Eggertsson og
Kristján Örn Kjartansson stofnuðu arkitektastofuna KRADS árið 2006 ásamt
Kristoffer Juhl Beilman &
Mads Bay Møller, með aðsetur og starfsemi bæði á Íslandi og í Danmörku. Allir eru þeir útskrifaðir frá Arktitektskolen Aarhus, Danmörku. Samhliða rekstri stofunnar hafa þeir starfað sem stundakennarar, m.a. við LHÍ frá árinu 2007, Arkitektskolen Aarhus, TU-Delft og Aalto University.
Nemar á fyrsta ári í arkitektúr eru nú um mundir að takast á við námskeiðið Hús nr.1 undir leiðsögn KRADS, þar sem lögð er áhersla á hönnunarferli byggingar í heild sinni.
Í fyrirlestrinum er veitt innsýn í hönnunarferli tveggja verkefna; Stöðina í Borgarnesi og Automotive Showroom í Herning, Danmörku, en bæði verkin hafa verið tilnefnd til Mies van der Rohe byggingarlistarverðlaunanna.
Viðburður á Facebook
Viðburður á síðu Listaháskólans
Sneiðmynd - skapandi umbreyting
Í fyrirlestrum vetrarins kynna kennarar Hönnunar- og arkitektúrdeildar eigin hönnunarverkefni og rannsóknir og ræða tengsl þeirra við kennslu í námskeiðum við deildina. Auk þess að fjalla um eigin verkefni verða tengsl hönnunar, sköpunar og rannsókna, kennslu og þekkingaröflunar rædd út frá ýmsum sjónarhornum.
Við Hönnunar- og arkitektúrdeild er boðið upp á nám á fjórum námsbrautum til bakkalárgráðu, í arkitektúr, fatahönnun, grafískri hönnun og vöruhönnun, auk þess sem boðið er upp á meistaranám í hönnun. Áhersla er lögð á að nemendur kunni skil á fræðilegum forsendum hönnunar og geti út frá þekkingu sinni tekið ábyrga afstöðu til umhverfis og samfélags. Nemendur eru stöðugt hvattir til að leita nýrra lausna og leiða og leggja sérstaka rækt við frumleika, ímyndunarafl og gagnrýninn hugsunarhátt og endurspeglast þessi áhersla einnig i í kennslu og rannsóknum kennara.
Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og er bæði fagfólk, nemendur og áhugafólk um hönnun hvatt til að mæta.