Fréttir

17.2.2015

Fleiri glefsur úr dagskrá HönnunarMars 2015

Það stefnir í mjög flotta hátíð í ár, en þemað er leikur í orðsins víðustu merkingu eða „PlayAway“. Íslenskir hönnuðir og arkitektar bera þungann af hátíðinni, líkt og endranær og ber dagskráin keim af þeim taumlausa sköpunarkrafti sem einkennir íslenskt samfélag. Hér gefur að líta glefsur úr þeirri fjölbreyttu dagskrá sem fram fer á HönnunarMars 2015.

Strengjakvartettinn endalausi


Ljósmynd: Sebastian Ziegler

Strengjakvartettinn endalausi er gagnvirkt tónverk þar sem hlustendur nota grafískt viðmót til að setja saman sína eigin útgáfu af verkinu á meðan þeir hlusta. Verkið er því einskonar heimur sem hlustandinn fer inn í og kannar á eigin forsendum.

Kvartettinn er óvenjulegur að því leyti að hann hefur hvorki ákveðið upphaf, enda né uppbyggingu, heldur er hann búinn til úr mörgum litlum einingum sem má setja saman hvernig sem er. Þær geta verið ein eða fleiri samtímis, í hvaða samsetningu eða röð sem er. Þannig er ekki til ein ákveðin útgáfa af verkinu heldur óendanlega margar.

Strengjakvartettinn var búinn til af Úlfi Eldjárn tónskáldi, Sigurði Oddsyni hönnuði og Halldóri Eldjárn forritara. Um hljóðfæraleik sáu þau Una Sveinbjarnadóttir og Pálína Árnadóttir á fiðlur, Guðrún Hrund Harðardóttir á víólu og Hrafnkell Orri Egilsson á selló. Upptökur annaðist Styrmir Hauksson.

Verkefnið hlaut stuðning frá Tónlistarsjóði og hópfjármögnun í gegnum Karolina Fund.

 

Einn á móti átján í SPARK DESIGN SPACE


Ljósmynd:  Auður Ösp og Halla Kristín

Sýningin Einn á móti átján í Spark Design Space kynnir til leiks dúkkuhús unnið af vöruhönnuðunum Auði Ösp Guðmundsdóttur og Höllu Kristínu Hannesdóttur. Dúkkuhús hafa heillað börn jafnt sem fullorðna í þúsundir ára. Þau hafa í gegn um aldirnar þjónað mörgum hlutverkum, átt hug safnarans og verið leiksvið barna og fullorðinna.

Húsgagnið í Einn á móti átján er þessi leikvöllur með vísun í svokallaðan furðuskáp, hirslu sem inniheldur ævintýralegt safn ýmissa hluta.

Húsgagnið er í raun óskrifuð saga, heimur þar sem ímyndunaraflið ræður ferðinni og persónur geta ferðast um í tíma og rúmi allt eftir hugmyndaflugi hvers og eins. Sagan þróast með eigandanum og breytist ár frá ári, kynslóð af kynslóð. Með árunum veitir húsið innsýn inní fortíðina og líf fyrri kynslóða, ásamt því að búa yfir óendanlegum möguleikum á framtíðar ævintýrum.

Í Spark Design Space mun gestum og tilvonandi eigindum dúkkuhúsanna gefast kostur á að skoða nokkur hús innréttuð fyrir sérkennilega og ímyndaða íbúa sem kveikja vonandi glóð innblásturs.

Post–Luxurian Artefacts



Ljósmynd: Tristan Thomson

Emilie F. Grenier, hönnuður frá Montréal, mun kynna rannsóknarverkefni þar sem hún tengir saman sögur og efni frá Montréal og Reykjavík sem munu að endingu verða að einstökum, frásagnarkenndum gripum.

Emilie sækir innblástur sinn í staðbundna hætti þessara tveggja borga, gripirnir verða handgerðir af heimamönnum og unnir úr staðbundnum efnum.
Emilie er með meistarargráðu í textíl frá Central Saint Martins College of Arts and Design í London. Í verkum sínum leggur hún áherslu á frásagnarlist og frásagnareðli hluta.

PERSONA | Minningar og hið margþætta sjálf


Mynd: Laufey Jónsdóttir

Laufey Jónsdóttir hönnuður kynnir sér ólíka ímynd einstaklinga í gegnum viðtöl um ævi og minningar. Samræður sínar nýtir hún sem grunn að tilraunakenndum portrett verkum sem unnin eru með blönduðum miðlum; teikningu, ljósmyndun, og klippimyndatækni með  leik að ljósi og skugga fyrir tilstilli þrívíddar.

Sýningunni er ætlað að velta upp spurningum um mannveruna og ímyndir í víðu samhengi með áleitnum hætti og afgerandi stílfærslu. Hún skoðar sjálfið, mannlegt eðli og minningar. Hvernig sjálfið beygir og brýtur upp veruleikann.

Á sýningunni gefur að líta þrívíðar brjóstmyndir af einstaklingum úr samfélaginu, unnar úr skornum pappír og áferðum sem sóttar eru í innri og ytri heim einstaklingsins í gegnum viðtöl og ljósmyndun.

MAGNEA X AURUM






Ljósmynd: Saga Sig

MAGNEA frumsýnir skartgripalínu sem unnin er í samstarfi við Aurum. Innblástur að línunni er sóttur í hugarheim fatamerkisins þar sem rík áhersla er lögð á prjón og notkun á íslensku ullinni í bland við óhefðbundin efni.

MAGNEA hefur vakið mikla athygli undanfarið fyrir áhugaverða nálgun á prjón og efnisnotkun þar sem íslenska ullin hefur spilað stórt hlutverk og áhersla á frágang og smáatriði verið í forgrunni. Línan er unnin út frá þessum áherslum og hugmyndir útfærðar í nýjan efnivið.

Aurum á langa og farsæla sögu sem eitt áhugaverðasta skartgripamerki á Íslandi. Aurum skartgripir búa yfir eftirtektarverðum blæbrigðum og má með sanni segja að náttúrleg form fái nýja merkingu í þrívíðri hönnun Aurum.

Smelltu hér til að skoða fleiri glefsur
















Yfirlit



eldri fréttir