Fréttir

21.1.2015

Handverk og hönnun haldin í 13. sinn – opið fyrir umsóknir



Sýningin Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur verður haldin í þrettánda sinn í maí n.k. Á sýningunni er handverk, hönnun og listiðnaður í öndvegi og er áhuginn og aðsóknin mjög mikil. Haldnar eru tvær sýningar á ári, um miðjan maí og í byrjun nóvember.

Nú er opið fyrir umsóknir vegna sýningarinnar sem verður haldin 14. til 18. maí. Allir sem vinna við handverk, listiðnað og fjölbreytta hönnun geta sótt um. Valnefnd velur úr umsóknum, en ný valnefnd er skipuð fyrir hverja sýningu. Mikilvægt er að sýningin endurspegli fjölbreytt úrval og mun valnefnd hafa það í huga þegar þátttakendur eru valdir.

Á heimasíðunni www.handverkoghonnun.is/radhusid  má finna rafrænt eyðublað til að fylla út og skulu sex myndir af verkum og ferilskrá fylgja umsókn.

Umsóknafrestur er til 9. febrúar 2015 og mun niðurstaða valnefndar liggja fyrir í síðasta lagi 17. febrúar.

Nánari upplýsingar á skrifstofu HANDVERKS OG HÖNNUNAR sem er opin alla virka daga frá kl. 9 - 16, s. 551 7595.
















Yfirlit



eldri fréttir