Fréttir

17.1.2015

Jessica Walsh hjá Sagmeister & Walsh á HönnunarMars



Jessica Walsh, annar eigandi hönnunarskrifstofunnar Sagmeister & Walsh verður meðal fyrirlesara á DesignTalks, fyrirlestrardegi HönnunarMars, sem haldinn verður í Reykjavík frá 12. til 15. mars næstkomandi.


Jessica er grafískur hönnuður og kennari í hönnun og leturgerð við School of Visual Arts í New York. Hún sló í gegn með bloggsíðunni og bókinni „40 Days of Dating“ sem hún vann með Timothy Goodman. Goodman og Walsh fóru á stefnumót daglega í 40 daga og skrifuðu um tilraunina. Warner Bros hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn af bókinni, sem seldist í 8 milljónum eintaka. Þá er von á framhaldi bókarinnar, „40 Days of Dating: An Experiment“ sem kemur út í janúar.

Aðrir fyrirlesarar sem hafa staðfest þátttöku sína á fyrirlestradeginum, sem ber titilinn Play Away, eru Anthony Dunne, prófessor við Royal College of Art í London, Walter Van Beirendonck, belgískur fatahönnuður og fagstjóri fatahönnunardeildar Royal Academy of Fine Arts í Antwerpen.

Umræðum stýrir Hlín Helga Guðlaugsdóttir, hönnuður, sýningarstjóri og kennari við Konstfack, Universtity College of Arts, Crafts and Design í Stokkhólmi, en hún er jafnframt listrænn stjórnandi DesignTalks 2015.

Um DesignTalks

DesignTalks fyrirlestrardagur HönnunarMars ber titilinn Play Away og markar upphaf hátíðarinnar, líkt og undanfarin ár. Þar mun einvala lið alþjóðlegra hönnuða og arkitekta fjalla um mikilvægi leiks í hönnun og nýsköpun út frá ólíkum sjónarhornum. Fyrirlesararnir miðla af reynslu sinni, deila verkum sínum, hugmyndum, og óhefðbundnum vinnubrögðum þar sem notast er við tilraunir, fantasíu, ímyndun og leikgleði.

Miðasala er hafin á fyrirlestradaginn, tryggðu þér miða strax í dag á harpa.is.

Nánar um DesignTalks hér.
















Yfirlit



eldri fréttir