Það stefnir í mjög flotta hátíð í ár, en þemað er leikur í orðsins víðustu merkingu eða „PlayAway“. Íslenskir hönnuðir og arkitektar bera þungann af hátíðinni, líkt og endranær og ber dagskráin keim af þeim taumlausa sköpunarkrafti sem einkennir íslenskt samfélag. Frestur til að
skrá viðburð í dagskrá er til 25.janúar.
Hér gefur að líta glefsur úr þeirri fjölbreyttu dagskrá sem fram fer á HönnunarMars 2015.
RFF - Reykjavík Fashion Festival
Reykjavík Fashion Festival verður nú haldin í sjötta sinn en hátíðin skapar mikilvægan vettvang fyrir íslenska fatahönnuði. Markmið hátíðarinnar er að markaðssetja og vekja athygli á íslenskri fatahönnun, þeirri þróun og tækifærum sem í henni felast. Mikil eftirvænting hefur skapast fyrir komandi hátíð og von bráðar verða þeir hönnuðir kynntir til leiks sem koma fram á RFF 2015.
Að eiga orð við Or Type
Or Type opnaði sem fyrsta sérhæfða leturútgáfa Íslands á HönnunarMars 2013. Nú tveimur árum síðar bíður útgáfan almenningi að eiga við sig orð. Óskað er eftir samtali um allt sem skiptir máli. Eða sem skiptir engu máli. Um veraldlega eða óveraldlega hluti. Allt sem hefur gerst eða sem ekki hefur enn gerst. Um allt eða um ekkert.
Or Type er samstarfsverkefni Guðmundar Úlfarssonar og Mads Freund Brunse. Verkefnið er unnið í samstarfi við forritarann Owen Hoskins og ljósmyndateymið Moos-tang.
Hæg breytileg átt
Hæg breytileg átt er vettvangur þverfaglegrar hugmyndavinnu á sviði íbúða- og byggðaþróunar, þar sem ætlunin er að varpa ljósi á vistvænni, samfélagsmeðvitaðri, hagkvæmari og framsæknari íbúðakosti í íslensku þéttbýli. Fjórir hópar voru valdir til að móta tillögur að lausnum þar sem sveigjanleiki, samnýting, fjölbreytt fjölskyldumynstur, minnkun vistsporsins og góð nýting á byggðum fermetrum er rauður þráður. Tillögurnar er hægt að útfæra og framkvæma en um leið er markmiðið að stuðla að frjórri samræðu um íbúðir og hverfi framtíðarinnar.
haegbreytilegatt.is
Sköpun
Sköpun er þverfaglegt samstarfsverkefni ólíkra einstaklinga sem öll eiga það sameiginlegt að vera innblásin af frumorkustöðvum mannkyns, kynfærunum. Hér birtast kynfærin í ólíkum myndum, formum og efnum með það markmið að fagna fjölbreytileikanum.
Þátttakendur í verkefninu eru; Sigríður Dögg Arnardóttir kynfræðingur, Krista Hall og Anna Rakel Róbertsdóttir Glad grafískir hönnuðir, Ýr Jóhannsdóttir fata- og textílhönnuður (Ýrúrarí), Hermann Sigðursson ljósmyndari og Alda Lilja Geirdóttir ljósmyndari og teiknari.
Saver Screensson
Sigurður um verkefnið:
„Saver Screensson er myndgervill útbúinn sem skjáhvíla. Ég hafði verið að teikna ýmis mynstur og fyrir tilviljun raðaði þeim ofan á hvert annað. Mér líkaði hvernig mynstrin komu út og sýndi vini mínum og forritara Hjalta Jakobssyni. Honum líkaði útkoman og út frá því byrjuðum við að vinna að einhverju sem kalla mætti skjáhvíla. Hún er gerð úr 340 mismunandi geometrískum stensilmyndum og -mynstrum. Myndirnar eru allar teiknaðar í sama geometríska „grid-inu“, þannig að þær passa alltaf saman. Með því að stafla myndum ofan á hver aðra, í handahófskenndri röð og lit, skapar Saver Screensson nýtt myndefni og möguleikarnir fyrir einstakar myndasamsetningar eru nánast óendanlegir.“
www.saver.is
Fleiri spennandi viðburðir og sýningar verða tilkynnt á næstunni svo fylgist með.