Fréttir

30.1.2015

Hefja sambúð á Stockholm Design Week 2015


Grafík: Siggi Odds

Hönnunarmiðstöð Íslands vinnur að spennandi samstarfsverkefni með Design Forum Finland á hönnunarvikunni í Stokkhólmi í byrjun febrúar. WE LIVE HERE er samnorrænt tilraunaverkefni Íslands og Finnlands, sem hefur það að leiðarljósi að kanna nýjar leiðir til þess að kynna norræna hönnun á alþjóðlegum vettvangi.


Á meðan hönnunarvikunni stendur munu íslenskir og finnskir hönnuðir flytja inn í fallega íbúð í miðbæ Stokkhólms, en eftir að hafa stungið nefjum saman í þó nokkurn tíma þá var kominn tími til þess að taka næsta skref og hefja sambúð.

Heimilið, sem er í senn sýningar- og viðburðarrými, kemur til með að endurspegla norræna lifnaðarhætti, en allt innbú samanstendur af framúrskarandi hönnunarmunum frá báðum þjóðum – þekktum sem nýjum. Sýningin verður opin fyrir bæði fjölmiðla og almenning og gestum og gangandi því velkomið að banka uppá. Í raun verður heimilshald eins nálægt og það gerist í raun, en von er á viðburðum eins og innflutningspartý, matarboðum, veislum, eftirpartý ofl.

Sem fyrr segir er WE LIVE HERE unnið af Hönnunarmiðstöð Íslands og Design Forum Finland í samstarfi við Codesign en það er eitt stærsta alþjóðlega verkefni sem Hönnunarmiðstöðin hefur ráðist í.

Sýningastjórar eru hönnuðirnir Elina Aalto og Marika Tesolin frá FROM og Hlín Helga Guðlaugsdóttir, grafíkin er í höndum Sigga Odds og Sanna Gebeyehu frá Codesign fer með listræna stjórnun verkefnisins.

Nánar um verkefnið hér.

WE LIVE HERE á Facebook

















Yfirlit



eldri fréttir