Fréttir

18.12.2014

Nýtt tímarit um hönnun og arkitektúr



Nýtt tímarit um hönnun- og arkitektúr kemur út í febrúar á næsta ári. Markmið tímaritsins er að efla þekkingu á hönnun og arkiektúr og lyfta hönnunartengdri umræðu á hærra plan. Tímaritið er gefið út af níu fagfélögum undir formerkjum Hönnunarmiðstöðvar Íslands. 

Tímaritið verður bæði á íslensku og ensku en þannig mun það ná til mun breiðari lesendahóps og um leið skapa íslenskum hönnuðum aukin tækifæri. Í efnistökum blaðsins verður leitast við að kafa dýpra og skoða ferli fremur niðurstöður. Þverfaglegar greinar verða í bland við fasta liði og mun tímaritið höfða jafnt til fagfólks og áhugafólks um hönnun.

Fyrst um sinn mun tímaritið koma út tvisvar á ári en stefnt er að ársfjórðungslegri útgáfu í náinni framtíð. Til að halda umræðunni á lofti milli tímarita mun ritstjórn halda úti heimasíðu með reglulegum uppfærslum á fréttatengdu efni og faglegri umræðu.

Allir félagsmenn Hönnunarmiðstöðvar, samtals 1200 talsins, munu fá tímaritið sent heim að dyrum.

Fyrsta tölublað tímaritsins mun líta dagsins ljós 12. febrúar næstkomandi, en þá er akkúrat mánuður í Hönnunarmars. Útgáfuteiti tímaritsins verður því góð upphitun fyrir uppskeruhátíð hönnuða, en Hönnunarmars er nú orðin þriðja fjölsóttasta hátíð landsins.  

Fylgist vel með, því fljótlega verður nafn tímaritsins opinberað.
















Yfirlit



eldri fréttir