Fréttir

15.12.2014

Skapar samtal á milli Montréal og Reykjavík fyrir HönnunarMars


Image: Émilie F. Grenier

Émilie F. Grenier er handhafi Phyllis Lamber Design Montréal Grant árið 2014. Með styrknum mun Émilie leggja sérstaka áherslu á þá þræði sem tengja þessar tvær Skapandi borgir UNESCO, Montréal og Reykjavík, saman og hvernig koma megi á fót samtali þeirra á milli.


Émilie er hönnuður sem leggur áherslu á frásagnarlist í verkum sínum en hún nam hönnun við Central Saint Martins College of Art and Design í London. Styrkurinn er veittur af Montréalborg til að styðja við nýja og upprennandi hönnuði. Émilie mun nota styrkinn til að vinna að safni gripa þar sem borgarsögur, sem tengja þessar tvær Skapandi borgir UNESCO saman, eru í forgrunni.

Hún mun leggja land undir fót í febrúar næstkomandi og heimsækja Reykjavík, þar sem hún mun hitta aðra unga hönnuði og rithöfunda og kanna hvernig nýta má reykvískt hráefni til að segja sögur – bæði sögur heimafólks en líka borgarinnar sjálfrar. Hún mun einnig rannsaka norræna texta og frásagnarhefð og sértaklega líta til þess efnis sem tekur til íslensks borgarumhverfis. Þetta ferli mun fæða af sér safn sýnishorna sem verða til sýnis á HönnunarMars í Reykjavík 2015.

Eftir mánaðardvöl í Reykjavík heldur Émilie aftur heim til Montréal þar sem hún mun halda rannsóknum sínum áfram og vinna úr því efni sem hún hefur viðað að sér í Reykjavík. Hún mun leggja sérstaka áherslu á þá þræði sem tengja þessar tvær Skapandi borgir UNESCO saman og hvernig megi koma á fót samtali milli þeirra. Þau verk sem líta dagsins ljós í framhaldi af þessari vinnu verða sýnd í Montréal undir heitinu Montréal – Reykjavík.

Émilie F. Grenier sagði þetta m.a. þegar hún tók við viðurkenningunni: „Meginhluti verka minna verður til í framhaldi af rannsóknarferli. Þess vegna er það mér svo mikilvægt að hljóta þennan styrk, þar sem vettvangsferðin er álitin óaðskiljanlegur hluti verkefnisins.“

Émilie F. Grenier er með meistaragráðu í textíllist frá Central Saint Martins College of Arts and Design í London. Í verkum sínum leggur hún áherslu á frásagnareðli hluta og frásagnarlega reynslu. Nýjasta verk hennar, Disquiet Luxurians, er safn munaðarvara sem skoðar efnahagslega og félagslega mismunum, en það var valið á sýninguna MOST Salone í Mílano árið 2013 af hinum þekkta breska hönnuði, Tom Dixon. Í framhaldi þess var verkið sýnt í Victoria & Albert safninu, á London Design Festival, á Dutch Design Week og í Protein Galleríinu í London. Émilie átti einnig hlut í verkefninu In the Mouth, sem var sýnt í Centre Phi í október 2014. Fjallað hefur verið um verk hennar í tímaritunum Wallpaper*, Dezeen, Protein Journal, Form Magazine, Abitare, Elle Decoration, Viewpoint og Fubiz, auk annarra blaða.

Émilie kynnir verkefni nánar hér.


















Yfirlit



eldri fréttir