Fréttir

9.12.2014

Sjö verkefni hlutu styrk úr Hönnunarsjóði Auroru



Hönnunarsjóður Auroru veitti sjö verkefnum styrki fimmtudaginn 25.nóvember. Alls bárust 50 umsóknir úr öllum sviðum hönnunar í sjóðinn og er þetta í 12. sinn sem úthlutað er. 

Hildur Yeoman fatahönnuður fékk tvær milljónir króna til víðtækrar vöruþróunar og uppbyggingar eigin vörumerkis sem sækir innblástur í flóru Íslands og áhrifamátt jurta. Fatahönnuðurinn Guðmundur Jörundsson, hjá JÖR, fær eina og hálfa milljón í styrk til hönnunar haustlínu fyrirtækisins fyrir árið 2015 og til kynningar og markaðssetningar vörumerkisins erlendis. Þá fékk Kron by Kronkron eina milljón til að markaðssetja sig í Bandaríkjunum.

Or Type leturútgáfa fékk eina og hálfa milljón til vöruþróunar og markaðssetningar á Or Type, sem er fyrsta og eina sérhæfða leturútgáfa Íslands. Sömu upphæð fékk fyrirtækið RóRó til hönnunar umbúða og kynningarefnis og þátttöku í vörusýningum erlendis. Katla Maríudóttir arkítekt fékk hálfa milljón til að aðlaga mastersverkefnið sitt og forsvarsmenn nýstofnaðs tímarits um hönnun og arkítektúr fengu 800 þúsund krónur til að koma því á fót.  Alls úthlutaði Hönnunarsjóður Auroru 8,8 milljónir króna. 

Um hönnunarsjóð Auroru
Hönnunarsjóður Auroru er þriggja ára tilraunaverkefni sem hefur að markmiði að skjóta styrkum stoðum undir íslenska hönnun með því að veita hönnuðum fjárhagslega aðstoð. Markmið sjóðsins er að styrkja hönnuði til að koma sjálfum sér, hugmyndum sínum, vörum og verkefnum á framfæri og aðstoða við vöruþróun, prótótýpugerð og markaðssetningu hérlendis og erlendis. Einnig getur sjóðurinn haft frumkvæði að sjálfstæðum verkefnum sem þjóna tilgangi hans svo sem að standa að viðurkenningum eða sýningum og vera samstarfsvettvangur hönnuða og aðila úr atvinnu- og viðskiptalífinu. Auk þessa mun sjóðurinn einnig miðla þekkingu á sviði hönnunar, í samstarfi við aðra aðila í faginu, eftir því sem við á. Sjóðurinn verður opinn ölllum hönnuðum og starfræktur á faglegum grunni.
















Yfirlit



eldri fréttir