Mynd: Tau frá Tógó
Farmers Market og Tau frá Tógó hafa efnt til samstarfs um hönnun og sölu á kjól þar sem allur ágóði rennur óskiptur í sjóði Tau frá Tógó.
Bergþóra Guðnadóttir, hönnuður og stofnandi Farmers Market, mun hanna kjól sem saumaður verður á saumastofu Divine Providence, heimili fyrir munaðarlaus börn í Aneho, Tógó. Farmers Market gefur alla vinnu í tengslum við verkefnið og allur ágóði rennur óskiptur í sjóði Tau frá Tógó. Kjólarnir eru gerðir í takmörkuðu upplagi og eru til sölu í verslun Farmers Market, Hólmaslóð 2.
Tau frá Tógó kaupir vörur af saumastofunni og selur á Íslandi, í Danmörku og Frakklandi. Saumastofan er tekjulind heimilisins og er um leið nokkurs konar iðnskóli fyrir elstu börnin. Allur ágóði af sölu Tau frá Tógó fer aftur til heimilisins: helmingur fer í að panta fleiri vörur og skapa þannig verkefni fyrir stofuna og helmingur fer í menntunarsjóð fyrir börnin.
Langtímamarkmið Tau frá Tógó er að styrkja saumastofuna þannig að hún geti tekið við stærri verkefnum frá viðskiptavinum og að heimilið geti þannig nýtt saumastofuna sem áreiðanlega tekjulind. Einnig er markmiðið að menntunarsjóðurinn verði það stór að hægt sé að veita úr honum reglulega ákveðna upphæð og tryggja þannig menntun barnanna til framtíðar.
Þeir einstaklingar og fyrirtæki sem hafa komið að verkefninu hafa annað hvort gefið vinnu sína eða þjónustu þ.á.m.:
Farmers Market
DHL
Bjarni Helgason, grafískur hönnuður
Textílprentun Íslands
Tau frá Togo á Facebook