Þórunn Árnadóttir er fyrsti viðtakandi ferðastyrks Summit sem veittur er ungum hönnuðum á Norðurlöndum. Styrkinn hlaut hún fyrir ferð sína og þátttöku á Stockholm Design Week 2015 þar sem hún mun sýna verkefni sitt ‘Sipp og Hoj’ sem part af sýningunni Subjectivities á vegum Nationalmuseum Design www.nationalmuseum.se og Summit www.summitunlimited.se.
Summit er leiðandi miðill og bókaútgáfa á sviði hönnunar og arkitektúrs. Summit var stofnað árið 2013 í Svíþjóð, hugarfóstur Daniel Golling og Gustaf Kjellin. Summit byggir stefnu sína á menningarlegum samskiptum á milli fólks, þjóða og skapandi greina. Með það að leiðarljósi leit Summit Travel Grant, eða ferðastyrkur Summit, dagsins ljós. Summit hlaut framlög frá sænskum arkitektum og hönnuðum til þess að halda sýningu á sænskri nútímahönnun á Hönnunarmars síðastliðnum með það að markmiði að fjármagna ferðastyrk fyrir íslenskan hönnuð til þess að komast á Stockholm Design Week 2015 og sýna á Nationalmuseum Design. Þórunn Árnadóttir var í framhaldinu valin af stjórn Hönnunarsjóðs til þess að hljóta styrkinn og sýna verkefnið sitt ‘Sipp og Hoj’.
Mynd: Þórunn Árnadóttir
’Sipp og Hoj’ samanstendur af sippuböndum, húlahringjum, töskum og lyklakippum sem unnin eru meðal annars úr hreindýrabeinum og hornum og netagarni frá Austurlandi. Verkefnið einkennist af leik og gleði þar sem hún blæs lífi í gamalkunna hluti sem flestir þekkja úr barnæsku. Þórunn aflaði grunnþekkingar á netagerð frá Þórhalli Þorvaldssyni kennara sem hún svo nýtti í samstarfi við Egersund Island á Eskifirði til framleiðslu á ’Sip og Hoj’.
Önnur úthlutun ferðastyrks Summit fór til Katriina Nuutinen frá Finnlandi.
www.thorunndesign.com
Summit Unlimited