Fréttir

12.12.2014

Sýning | Snjókoma eftir Postulínu í Harbinger



Laugardaginn 6. desember opnar Postulína sýninguna Snjókoma í Harbinger, sýningarrými við Freyjugötu 1. Snjókoma er postulíns-innsetning í 1000 þáttum sem hangir niður úr lofti gallerísins fram að jólum.

Fullkomlega samhverf svífa snjókornin til jarðar eftir að ísköld háloftin hafa mótað þau. Við á jörðu niðri getum ekki annað en hallað aftur höfðinu, haldið augunum opnum og jafnvel munni. Í vetrarstillum er fátt fallegra en snjókorn sem virðast lifandi stutta stund, dansa saman af himnum ofan, en hverfa síðan á svörtu malbiki eða í snjóhvítum sköflum á jörðu niðri. Sagan segir að ekkert þeirra sé eins. Dularfull háloftin útbúa þessar fullkomnu smíðar, form sem hægt er að bregða undir smásjá og byggingareiningarnar mælast þá í míkrómetrum.

Fyrstu snjóar koma okkur ævinlega á óvart, rétt eins og við séum búin að gleyma því hve hvít þessi ábreiða getur verið. Við viljum snerta, minna okkur á kuldann sem kemur af himnum. Þetta hverfula byggingarefni vekur ánægju, ævintýraþrá, stríðni og jafnvel listrænan metnað. Við tökum okkur snjóinn í hönd og þrýstum honum saman milli fingra okkar. Úr verða önnur form sem við viljum helst frysta en eru líka dæmd til að bráðna og eyðast. Eftir stendur minningin um fyrsta snjóinn, þá hreinu upplifun sem við finnum innra með okkur þegar við horfum á hann falla, handfjötlum og mótum. 

(texti: Guðni Tómasson)

Postulína er samstarfsverkefni Guðbjargar Káradóttur leirkerasmiðs og Ólafar Jakobínu Ernudóttur hönnuðar. Þær hafa starfað saman frá árinu 2011 og þróað postulínsmuni við góðan orðstír, heima og heiman. Sem dæmi má nefna Jökla matarstellið en það sýndu þær í samvinnu við ljósmyndarann Vigfús Birgisson á HönnunarMars s.l. vor.

Allir gripir Postulínu eru mótaðir í höndum á rennibekk, þar sem hefðbundar og nútímalegar aðferðir eru leiddar saman.



















Yfirlit



eldri fréttir