Aðgerðarhópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og Hönnunarmiðstöð stóðu fyrir samkeppni um hönnun á nýju einkennismerki, jafnlaunamerki fyrir vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana. Niðurstaða liggur nú fyrir en höfundur verðlaunatillögunnar er Sæþór Örn Ásmundsson, hlýtur hann 1.000.000 kr. í verðlaunafé.
Umsögn dómnefndar segir: „Merkið sameinar þá þætti sem endurspegla inntak jafnlaunastaðalsins. Í merkinu má sjá mynd sem sýnir skífurit, stimpil, rúnir og brosandi andlit tveggja ólíkra einstaklinga. Í lögun minnir merkið á mynt eða pening og gefur þannig til kynna að einstaklingarnir sem þar sjást eru metnir jafnir að verðleikum. Merkið býður upp á alþjóðlega notkun, er einstakt og lýsandi fyrir verkefnið. Það hentar vel til notkunar, stórt sem smátt.“
Í dómnefnd sátu:
Benendikt Þór Valsson, samband íslenskra sveitafélaga, tilnefndur af aðgerðahópi stjórnvalda og aðilum vinnumarkaðarins um launajafnrétti
Guðný Einarsdóttir, sérfræðingur tilraunaverkefnis um innleiðingu jafnlaunastaðals í fjármálaráðuneytinu tilnefnd af aðgerðahópi stjórnvalda og aðilum vinnumarkaðarins um launajafnrétti
Sóley Stefánsdóttir, tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands
Birna Geirfinnsdóttir, tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands
Örn Smári Gíslason, tilnefndur af Hönnunarmiðstöð Íslands
Um Jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012
Atvinnulífið hefur legið undir ámæli vegna kynbundins launamunar. Fyrirtækjum/stofnunum hefur skort hagnýtt tæki til að koma á og viðhalda launajafnrétti kynjanna. Jafnlaunastaðall ÍST 85: 2012 er slíkt tæki:
• miðar að innleiðingu markvissra og faglegra aðferða við ákvörðun launa, virkri rýni og umbótum
• nýtist fyrirtækjum/stofnunum óháð stærð, starfsemi og kynjahlutfalli meðal starfsmanna
• tilgreinir kröfur til jafnlaunakerfis
• gerir fyrirtækjum/stofnunum kleift að fá vottun þar til bærs aðila á jafnlaunakerfi sínu.
Heildarsamtök launafólks, atvinnurekenda og stjórnvöld áttu frumkvæði að gerð og þróun staðalsins sem unninn var á vettvangi Staðlaráðs Íslands.
Innleiðing jafnlaunastaðals er hluti af aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynjanna sem undirrituð var í desember 2011. Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins hafa m.a. umsjón með innleiðingu jafnlaunastaðals.
Nánar um samkeppnina
hér.