Mynd: Börkur Sigþórsson.
Hönnunarverðlaun Íslands verða afhent í fyrsta sinn þann 20. nóvember
næstkomandi. Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að verðlaununum, í samstarfi
við Hönnunarsafn Íslands og Listaháskóla Íslands, en tilgangur þeirra er að vekja
athygli á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs ásamt því að
veita hönnuðum/arkitektum hvatningu og viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Hönnunarverðlaun Íslands 2014 eru peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 krónur, veitt af iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Vægi
hönnunar í menningu okkar, samfélagi og viðskiptalífi er óðum að aukast. Því eru
Hönnunarverðlaun Íslands mikilvægur liður í því að vekja athygli á gæðum íslenskrar
hönnunar og arkitektúrs og auka skilning á gildi góðrar hönnunar. Einnig munu
Hönnunarverðlaunin nýtast til að gera íslenska hönnuði og arkitekta meira áberandi
og sýnilegri sem einstaklinga í samfélaginu.
Rúmlega 100 tilnefningar bárust dómnefnd, skipuð af Hönnunarmiðstöð Íslands,
Listaháskóla Íslands og Hönnunarsafni Íslands, en lokað var fyrir innsendingar þann
24.október. Nú hefur dómnefndin farið yfir tilnefningar og valið fjögur verk sem þykja
framúrskarandi. Þau eru eftirfarandi:
Ljósmyndastúdíó H71a á Hverfisgötu, hannað af Stúdíó Granda, er vandlega
úthugsuð úrlausn, þar sem tekst á sannfærandi hátt að aðlaga viðbyggingu, húsinu
sem fyrir er. Þessi leið, minniháttar inngrip í byggingarlist, er nauðsynleg til að
viðhalda útþenslu miðbæjar Reykjavíkur. Viðbyggingin sýnir að hægt er að teikna
nýbyggingar og reisa þær í samræmi við það umhverfi sem fyrir er.
Verkið Skvís eftir Sigga Eggertsson sem sýnt var í Spark Design Space 2013 sýndi
á einstakan hátt kraft og gildi grafískrar hönnunar og þá upplifun sem hún getur
skapað. Í einstaklega litríku verkinu er að finna átta andlit, en verkið er borið uppi
af abstrakt mynsturgerð sem Siggi hefur þróað og er höfundareinkenni verka hans.
Grafísk hönnun Sigga var sett í nýtt samhengi með sýningunni, þar sem áhorfandinn
gekk inn í optíska og orkumikla mynstursmiðju hönnuðarins, þar sem mörk tvívíðs og
þrívíðs rúms mættust.
Magnea AW2014 eftir fatahönnuðinn Magneu Einarsdóttur var sýnd á Reykjavík
Fashion Festival fyrr á árinu. Magnea leggur ríka áherslu á prjón og textíl í hönnun
sinni og nýtir að miklu leyti íslenskt hráefni í bland við nýstárlegri efni. Nálgun
hennar er fersk og einkennist af ítarlegri rannsóknarvinnu og tæknilegri þekkingu.
Niðurstaðan eru óvæntar, stílhreinar, grafískar flíkur, ríkar af áferðum, prjóni og
áhugaverðum frágangi.
Designs from Nowhere eða Austurland: innblástursglóð snýst um að kanna
möguleika til smáframleiðslu á Austurlandi, þar sem notast er við staðbundin
hráefni og þekkingu. Karna Sigurðardóttir og Pete Collard áttu frumkvæði að
verkefninu en hönnuðurnir Þórunn Árnadóttir, Gero Grundmann, Max Lamb og Julia
Lohmann þróuðu sjálfstæð verkefni í nánu samstarfi við handverksfólk og fyrirtæki
á Austfjörðum. Með því að tengja saman á óvæntan hátt mannauð, staði og hráefni
varð til áhrifaríkt samstarf þar sem nýjir hlutir urðu til.
Hönnunarverðlaun Íslands 2014 eru peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 kr. veitt
af
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Eitt ofannefndra verkefna mun hljóta
verðlaunin við formlega athöfn fimmtudaginn 20. nóvember.
Starfandi dómnefndarmeðlimir Hönnunarverðlauna Íslands 2014 eru:
Harpa Þórsdóttir forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands
Massimo Santanicchia lektor í arkitektúr við Listaháskóla Íslands
Örn Smári Gíslason sjálfstætt starfandi grafískur hönnuður
Laufey Jónsdóttir fatahönnuður og formaður Fatahönnunarfélags Íslands
Tinna Gunnarsdóttir sjálfstætt starfandi hönnuður og kennari við Listaháskóla Íslands
Nánar um verðlaunin á:
verdlaun.honnunarmidstod.is
Hönnunarverðlaun Íslands á facebook