Uppfært föstudaginn 24. október kl.10.30 - frestur er framlengdur til miðnættis sunnudaginn 26. október.
Kallað er eftir tilnefningum til Hönnunarverðlauna Íslands, en opið er fyrir tilnefningar til miðnættis föstudaginn 24. október. Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands og Listaháskóla Íslands. Tilgangur þeirra er að vekja athygli á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs ásamt því að veita hönnuðum/arkitektum hvatningu og viðurkenningu fyrir vel unnin störf.
Hönnuðir og arkitektar geta sjálfir tilnefnt eigin verk. Einnig má
tilnefna verk annarra. Tilnefningum er skilað á rafrænu eyðublaði
hér.
Vægi hönnunar í menningu okkar, samfélagi og viðskiptalífi er óðum að aukast. Því eru Hönnunarverðlaun Íslands mikilvægur liður í því að vekja athygli á gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs og auka skilning á gildi góðrar hönnunar. Einnig munu Hönnunarverðlaunin nýtast til að gera íslenska hönnuði og arkitekta meira áberandi og sýnilegri sem einstaklinga í samfélaginu.
Hönnunarverðlaun Íslands 2014 verða afhent í fyrsta sinn í nóvember næstkomandi. Hönnunarverðlaun Íslands eru peningaverðlaun að upphæð 1.000.000kr veitt af Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
Nánar um verðlaunin
hér.
Mynd: Hörður Lárusson