Hörgull í allsnægtum - Hið byggða umhverfi og hrunið á Íslandi, er ný bók um arkitektúr sem kemur út á dögunum. Bókin er gefin út á ensku en í henni má finna greinar eftir hina ýmsu fræðimenn, listamenn, arkitekta og aðgerðasinna. Aðalritstjóri bókarinnar er Arna Mathiesen, arkitekt, en hún kemur til með að kynna bókina í Listaháskóla Íslands í hádeginu föstudaginn 24.október.
Bókin er um hrunið og hið byggða umhverfi á Íslandi og á sérstakt erindi við þá sem hafa áhuga á hönnun, skipulagi og arkitektúr. Upphaf bókarinnar má rekja til evrópsk rannsóknarverkefnis „Scarcity and Creativity in the Built Environment“ eða „Hörgull og sköpun í hinu byggða umhverfi“, þar sem Arkitektaskólinn í Osló sá um eitt af undirverkefnunum: rannsókn á höfuðborgarsvæði Íslands fyrir og eftir hrun.
Hátt í 60 einstaklingar koma að vinnslu bókarinnar - en einnig eru birt nemendaverkefni sem rannsaka nýjar framtíðarsýnir í ljósi hrunsins, unnin af nemendum í arkitektadeild Listaháskóla Íslands, skipulagsdeild Landbúnaðarháskólans og EMU (evrópskt framhaldsnám meistara í borgarskipulagi).
Ritstjórar eru Arna Mathiesen frá Apríl Arkitektum í Osló, Dr. Giambattista Zaccariotto frá Ítalíu og prófessor Thomas Forget frá háskólanum í North-Carolina í Bandaríkjunum.
Útgefandi er Actar, erlent forlag, sem er þekkt fyrir vandaðar bækur um arkitektúr og skipulagsmál.
Sem fyrr segir þá verður sérstök kynning á bókinni í Listaháskóla Íslands, í hádeginu, föstudaginn 24. október kl. 12.10, í höndum Örnu Mathiesen, en hún hefur rekið arkitektastofuna Apríl Arkitektar í Osló síðustu 20 ár.
Hér má finna viðburðinn á facebook