Hugarflug verður haldið í fjórða sinn föstudaginn 20. febrúar 2015. Ráðstefnan er mikilvægur liður í uppbyggingu þekkingar á fræðasviði lista, en áhersla er lögð á að draga fram þann fjölbreytileika sem einkennir nálgun, aðferðir, efnistök og miðlun rannsókna á sviðinu.
Fræðafólk, listamenn, hönnuðir og aðrir sem starfa á sviði lista og menningar eru hvattir til að notfæra sér fjölbreyttar aðferðir og miðla til að finna framlagi sínu viðeigandi umgjörð, s.s. sýningar, vinnusmiðjur, flutning í rauntíma, lengri málstofur, styttri málstofur (Pecha Kucha), kynningar á verkum í vinnslu, hringaborðsumræður, samtalsform, gjörningar eða annað.
Styttri málstofur (Pecha Kucha): 1,5 klst (5-8 þátttakendur, 7-10 mín á mann)
Lengri málstofur: 1,5-2 klst (3-4 þátttkendur, 30 mín á mann)
Hringaborðsumræður: 60 mín
Stök erindi: 30 mín
Vinnusmiðjur: 60 mín
Sýning/flutningur: allur dagurinn, auk stuttrar kynningar (kjallari, fyrirlestrasalir, kennslustofur og Gallerí 105 í húsnæði skólans að Þverholti 11 er til umráða)
Verk í vinnslu: 30 mín eða 60 mín
Annað: tilgreinið hvort þið viljið 30 mín eða 60 mín pláss í dagskrá.
Í ár vill ráðstefnunefndin kalla sérstaklega eftir tillögum tengdum hugtakinu hliðrun, þótt dagskrá ráðstefnunnar muni ekki takmarkast við það viðfangsefni. Skilyrði er nú sem fyrr að tillögur tengist rannsóknum á sviði lista á einn eða annan hátt.
Tillögur skulu innihalda nafn, starfstitil og netföng þátttakenda, ásamt lýsingu sem ekki er lengri en 300 orð, og sendast á netfangið
olofg@lhi.is
Frestur til að senda inn tillögur er 12. desember. Innsendum tillögum verður svarað 12. janúar 2015.
Ekkert skráningargjald er á ráðstefnuna og ekkert fjármagn er til framleiðslu eða uppsetningar verka.
Ráðstefnunefnd:
Bryndís Björgvinsdóttir, aðjúnkt og fagstjóri hönnunar- og arktiektúrdeild
Hulda Stefánsdóttir, prófessor og fagstjóri myndlistardeild
Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, forstöðumaður rannsóknaþjónustu