Fréttir

8.10.2014

Samkeppni um jafnlaunamerki



Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og Hönnunarmiðstöð Íslands standa fyrir samkeppni um hönnun á nýju einkennismerki, jafnlaunamerki fyrir vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012. Samkeppnin er öllum opin en veitt verða ein verðlaun að upphæð 1.000.000 kr. fyrir bestu tillöguna. Samið verður sérstaklega við vinningsahafa um frekari útfærslu. Skilafrestur tilagna er til kl. 12:00, 5. nóvember 2014.




Jafnlaunastaðallinn er stjórntæki sem nýtist atvinnurekendum við mótun eða endurskoðun á launastefnu sinni og þeim aðferðum og viðmiðum sem notuð eru við launasetningu. Jafnlaunastaðallinn er afurð áralangs samstarfs heildarsamtaka launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda. Um er að ræða útfærslu á ákvæði í jafnréttislögum 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna til launa. Markmið innleiðingu jafnlaunastaðals er að auka gagnsæi og gæði í launaákvörðunum svo jafnverðmæt störf njóti sömu kjara og réttinda. Staðallinn er byggður upp með sama hætti og alþjóðlegir stjórnunarstaðlar eins og t.d. ISO 14001 um umhverfisstjórnun.

Einkennismerkið skal endurspegla inntak jafnlaunastaðalsins þ.e. að jafnverðmæt störf njóti sömu kjara og réttinda óháð kyni og hvers konar mismunun. Megin inntak jafnlaunastaðalsins er að fyrirbyggja og leiðrétta launamisrétti á milli kynjanna. Aðferðafræði hans er jafnframt hægt að nota til að fyrirbyggja hvers konar mismunun. Einkennismerkið þarf að vera nothæft í alþjóðlegu samhengi þar sem Jafnlaunastaðallinn er fyrstur sinnar tegundar í heiminum og gæti verið þýddur og innleiddur erlendis. Merkið skal nýtast á margvíslegan hátt í kynningarefni, á skilti, prentað og rafrænt. Merkið þarf að vera áhugavert, einkennandi og auðvelt í notkun í öllum miðlum. Valdar tillögur verða sýndar á norrænni ráðstefnu um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði þann 13. nóvember. Á ráðstefnunni fer verðlaunaafhending jafnframt fram.

Verðlaunafé
Veitt verða ein verðlaun að upphæð 1.000.000 kr. fyrir bestu tillöguna.

Umsóknarferli
Tillögum skal skila í lokuðu umslagi merktu dulnefni í Hönnunarmiðstöð Íslands, Vonarstræti 4b, 101 Reykjavík, fyrir kl. 12.00, miðvikudaginn 5. nóvember 2014. Í umslaginu skal vera annað lokað umslag merkt dulnefni en inni í því þarf rétt nafn hönnuðar, heimilisfang og sími að koma fram. Tillögum skal skila útprentuðum á A4 blaði í lit (hámark 2 síður). Tillögur skulu einnig fylgja með á diski með pdf-skjölum. Ekki er hægt að tryggja að keppendur fái tillögur sínar afhentar að keppni lokinni.

Dómnefnd skipa:
Benendikt Þór Valsson, samband íslenskra sveitafélaga, tilnefndur af aðgerðahópi stjórnvalda og aðilum vinnumarkaðarins um launajafnrétti

Guðný Einarsdóttir, sérfræðingur tilraunaverkefnis um innleiðingu jafnlaunastaðals í fjármálaráðuneytinu tilnefnd af aðgerðahópi stjórnvalda og aðilum vinnumarkaðarins um launajafnrétti

Sóley Stefánsdóttir, tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands
Birna Geirfinnsdóttir, tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands
Örn Smári Gíslason, tilnefndur af Hönnunarmiðstöð Íslands


Með afhendingu á tillögu í samkeppni, telst þátttakandi samþykkja dómnefnd og keppnisgögn og að hann muni virða niðurstöðu dómnefndar. Farið verður með öll gögn sem trúnaðarmál. Dómnefndin áskilur sér rétt til að hafna öllum tillögum.

Keppnisritari
Ritari keppninnar er Haukur Már Hauksson, grafískur hönnuður. Fyrirspurnir þurfa að berast fyrir 14. október 2014 á veffangið samkeppni@honnunarmidstod.is. Öllum spurningum verður svarað og svörin birt á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvar www.honnunarmidstod.is þann 16. október 2014. 


Um Jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012
Atvinnulífið hefur legið undir ámæli vegna kynbundins launamunar. Fyrirtækjum/stofnunum hefur skort hagnýtt tæki til að koma á og viðhalda launajafnrétti kynjanna. Jafnlaunastaðall ÍST 85: 2012 er slíkt tæki:

•    miðar að innleiðingu markvissra og faglegra aðferða við ákvörðun launa, virkri rýni og umbótum
•    nýtist fyrirtækjum/stofnunum óháð stærð, starfsemi og kynjahlutfalli meðal starfsmanna
•    tilgreinir kröfur til jafnlaunakerfis
•    gerir fyrirtækjum/stofnunum kleift að fá vottun þar til bærs aðila á jafnlaunakerfi sínu.

Heildarsamtök launafólks, atvinnurekenda og stjórnvöld áttu frumkvæði að gerð og þróun staðalsins sem unninn var á vettvangi Staðlaráðs Íslands.
Innleiðing jafnlaunastaðals er hluti af aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynjanna sem undirrituð var í desember 2011. Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins hafa m.a. umsjón með innleiðingu jafnlaunastaðals.

Mynd: Arnar Fells
















Yfirlit



eldri fréttir