Fréttir

18.9.2014

Á markað með nýtt nýsköpunarverkefni?



Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki úr verkefninu Átak til atvinnusköpunar. Veittir eru styrkir til nýsköpunarverkefna og markaðsaðgerða starfandi frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja. Umsóknarfrestur rennur út klukkan 12:00 föstudaginn 26. september.

Markmið verkefnisins er:
•Að styðja við þróun nýsköpunarhugmynda á fyrri stigum sem hlotið gætu frekari fjármögnun sjóða og fjárfesta.
•Að styðja við undirbúning og framkvæmd markaðsaðgerða í frumkvöðla og sprotafyrirtækjum.

Sérstök áhersla er lögð á:
•Verkefni sem skapa ný störf
•Nýsköpun og/eða samstarfsverkefni sem byggja á hönnun
•Nýsköpun sem á sér stað í klasasamstarfi
•Verkefni sem eru að stíga sín fyrstu skref á alþjóðamarkaði

Styrkir geta að hámarki numið 50% af heildarkostnaði verkefnisins. 
Afar mikilvægt er að umsóknir séu vel gerðar og að öll gögn fylgi með þeim en hægt er að hengja viðhengi við rafræna umsókn. Hafi umsókn ekki borist fyrir auglýstan umsóknarfrest, áskilur stjórn Átaks til atvinnusköpunar sér rétt til að hafna umsókn.

Gott er að fá aðra til að lesa yfir umsóknir af þessu tagi og koma með ábendingar. Umsækjendur geta einnig leitað til starfsmanna Nýsköpunarmiðstöðvar og óskað eftir aðstoð og yfirlestri við umsóknareyðublaðið.

Kynning á umsóknarforminu á netinu
Boðið verður upp á netfund í gegnum GoToMeeting netfundarkerfið þar sem farið verður yfir helstu þætti umsóknareyðublaðsins fimmtudaginn 18. september kl.13:00.

Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig á netfangið selma@nmi.is fyrir kl. 16:00 miðvikudaginn 17. september. Skráðir þátttakendur fá síðan sent boð um þátttöku á fundinum í gegnum tölvupóst rétt áður en fundur hefst og eru þeir við tölvur á heimilum/skrifstofum og sjá upplýsingarnar á skjá, geta spurt og tekið þátt í umræðum.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

















Yfirlit



eldri fréttir