Listasafn Reykjavíkur býður íbúum í Breiðholti og öðrum borgarbúum á formlega afhjúpun á vegglistarverkinu Fjöðrinni eftir Söru Riel sem er á fjölbýlishúsinu Asparfelli 2-12 laugardaginn 5. júlí kl. 15. Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson afhjúpar verkið.
Veggmyndin Fjöðrin er samsett úr 43 fuglum af 23 tegundum sem skapa eina heild. Listakonan Sara Riel segir að verkið hafi m.a. tilvísun í umhverfið þar sem ólíkir einstaklingar skapa eina heild og samfélag. Hún segir að það hafi verið stórkostlegt að kynnast hinu alþjóðlega samfélagi í efra Breiðholti og eiga samtal við íbúa um verkið. Það hafi jafnframt komið sér ánægjulega á óvart hversu margir fuglar voru í nágrenni við hana þegar hún vann að verkinu.
Borgarráð ákvað á síðasta ári að fjölga listaverkum í opinberu rými í Breiðholti og er verkið hluti af því átaki sem hefur fengið nafnið Vegglist í Breiðholti. Verkefninu er ætlað að breiða út list í opinberu rými utan miðborgarinnar, fegra hverfið og skapa umræðu. Alls verða fimm veggmyndir eftir fjóra listamenn komnar í Breiðholtið á næstu mánuðum og átta veggmyndir eftir ungmenni á aldrinum 17-20 ára.