Hönnunarstofan Leynivopnið hlýtur silfurverðlaun í hönnunarkeppni Graphis, Design Annual 2015. Verðlaunin eru fyrir merki sem hannað var fyrir Systrasamlagið sem er heilsuhof á Seltjarnarnesi, rekið af tveimur systrum, sem bjóða upp á heilsusamlegt góðgæti.
Graphis útgáfan var stofnuð í Sviss árið 1944 en er nú starfandi í New York. Graphis hefur frá upphafi gefið út bækur og tímarit um það besta sem er að gerast í auglýsingum og hönnun í heiminum.
Nánar um Graphis og verðlaunin má sjá hér.
Leynivopnið er hönnunarfyrirtæki í Reykjavík og hefur verið starfandi síðan 2010. Það er rekið af Einari Gylfasyni, grafískum hönnuði, og Unni Valdísi Kristjánsdóttur, vöruhönnuði.
Fyrr á árinu vann Leynivopnið til verðlauna sem tímaritið
Communiaction Arts, stendur fyrir og birtist merkið í útgáfunni Typography Annual 4, sem er tölublað janúar/febrúar 2014. Tímaritið er eitt stærsta og virtasta fagtímarit sem fjallar um hönnun og gefið er út í heiminum í dag, stofnað 1959.
Hönnunarmiðstöðin óskar Leynivopninu innilega til hamingju með verðlaunin!