Fréttir

18.5.2014

Auglýst eftir verkefnastjóra HönnunarMars




Hönnunarmiðstöð Íslands óskar eftir að ráða framsækinn, kraftmikinn og skapandi einstakling í starf verkefnastjóra HönnunarMars.

Starfsmaður hefur umsjón með og ber ábyrgð á skipulagningu og framkvæmd HönnunarMars í samstarfi við framkvæmdarstjóra Hönnunarmiðstöðvar og stjórn HönnunarMars. Starfið er yfirgripsmikið og krefst samskiptahæfni, góðrar yfirsýnar, framkomuhæfileika og getu til að halda mörgum boltum á lofti í einu. Starfsmaður mun einnig hafa umsjón með öðrum verkefnum á vegum Hönnunarmiðstöðvar.

Lykilverkefni verkefnastjóra eru:

  • Viðburðastjórnun og umsjón með dagskrá
  • Samskipti og ráðgjöf
  • PR – samskipti við fjölmiðla og fréttaflutningur
  • Umsjón með gerð markaðsefnis
  • Fundarstjórn og kynningar

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfinu
  • Þekking og reynsla af verkefnastjórnun / viðburðastjórnun
  • Góð þekking á hönnun og umhverfi hönnuða hvoru tveggja á Íslandi og erlendis
  • Góð íslenskukunnátta, enskukunnátta og færni í norðurlandamáli
  • Þekking á vefumhverfi og samfélagsmiðlum, tölvu og tæknilæsi
  • Sjálfstæð vinnubrögð og góðir skipulagshæfileikar
  • Mikill áhugi á starfinu

Umsóknum eiga að fylgja ítarlegar starfsferilskrár og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningi fyrir hæfni viðkomandi í starfið. Umsóknarfrestur er til og með 26. maí 2014.

Umsjón með starfinu hefur Ragnheiður Dagsdóttir (ragnheidur.dagsdottir@capacent.is) hjá Capacent Ráðningum. Umsækjendur eru vinsamlegast beðnir að sækja um starfið á heimasíðu Capacent Ráðninga, www.capacent.is.

Um Hönnunarmiðstöð

Hönnunarmiðstöð Íslands er upplýsinga- og kynningarmiðstöð fyrir íslenska hönnun á Íslandi og erlendis. Meginhlutverk Hönnunarmiðstöðvar er að efla skilning þjóðarinnar á mikilvægi hönnunar fyrir samfélagið og íslenskt efnahagslíf og benda á þá miklu verðmætasköpun sem getur falist í íslenskri hönnun fyrir þjóðfélagið allt. Hönnunarmiðstöð stuðlar að framgangi íslenskra hönnuða erlendis.

Í Hönnunarmiðstöð starfa 4 starfsmenn auk tímabundinna strfsmanna. Hönnunarmiðstöð er rekin af metnaði. Lögð er áhersla á samvinnu, opin samskipti, frumkvæði og gott andrúmsloft.

Hönnunarmiðstöð Íslands er í eigu Arkitektafélags Íslands, Félags húsgagna- og innanhússarkitekta, Félags íslenskra landslagsarkitekta, Félags vöru- og iðnhönnuða, Leirlistafélags Íslands, Fatahönnunarfélags Íslands, Textílfélagsins, Félags íslenskra gullsmiða og Félags íslenskra teiknara. Hönnunarmiðstöð er rekin fyrir fjárframlög frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
















Yfirlit



eldri fréttir