Fréttir

16.4.2014

Íslensk húsgögn vinna til verðlauna í hönnunarkeppni í Mílanó



Á dögunum var tilkynnt um verðlaun á “A’ Design Competition 2014” , alþjóðlegu hönnunarkeppninni í Mílanó. Skrifborðið, EitthvaðYfir (e. SomethingRegal) var valið “A’Design Winner” í flokki húsgagna og hægindastóllinn Andagjöf (e. The Gift of the Spirit) fékk viðurkenninguna “Runner-up for A’Design Award”. Hönnuður þessara húsgagna er Jóhann Sigmarsson.

Í keppninni voru 5.641 þátttakendur og bárust 12.523 umsóknir frá 208 löndum til keppninarinnar. Það var 50 manna dómnefnd sem samanstóð af fræði, atvinnu og athafnafólki víðsvegar að úr heiminum. Sýning á munum hönnunarkeppninnar verða til sýnis í Mílanó frá 3.-25. ágúst 2014.

Húsgögn Jóhanns Sigmarssonar eru unnin úr 100 áru gömlum við úr Reykjavíkurhöfn. Jóhann sá í sjónvarpsfréttum að Faxaflóahafnir sf, voru hreinsa á brott ónýta bryggjudrumba vegna breytinga í Reykjavíkurhöfn. Hann sóttist eftir þeimm fékk þá og vann drumbana með endurvinnslu í huga.

Árið 1903 voru þeir nýttir í síldarbryggju sem síðar varð hluti Reykjavíkurhafnar þegar hún kom til sögunnar 1913. Við nánari athugun kemur í ljós að viðurinn mun hafa komið úr þýsku seglskipi sem fórst um 1890 í Faxaflóa. Brakið var dregið til Reykjavíkur og kaupmenn notuðu það í bryggjur. Árhringir trjánna gefa hins vegar til kynna að þau hafi staðið í 200 ár eða lengur þegar þau voru höggvin til skipasmíða.

Saga viðarins eykur gildi þess sem unnið er úr honum. Húsgögnin eru einstæð fyrir vikið. Meira en 300 ára gömul tré verða að nytjahlut og sagan er við fingurgóma þess sem snertir þau.

Ennfremur eru húsgögnin hluti af Miðbaugs- minjaverkefninu sem er alþjóðlegt farandverkefni listamanna sem vinna með endurnýtt efni úr sögulegum heimsminjum. Verkin verða sýnd á alþjóðlegum listasýningum og seld á uppboði í lok hverrar sýningar. Hluti af hverju seldu verki mun renna í sjóð til að styrkja góð málefni á heimsvísu.

Minjar sem búið er að afla: Reykjavíkurhöfn, Hamborgarhöfn , Berlínarmúrinn og Hiroshima.

Í Miðbaugs- listhópnum eru: listamennirnir, Jóhann Sigmarsson, Steingrímur Eyfjörð, Patrice Lux , Matthias Krause, Jón Adólf Steinólfsson & Halldór Ásgeirsson.

Teymi: Jóhann Sigmarsson stjórnandi, Gísli Gíslason lögfræðingur / uppboð, Eydís Eir Björnsdóttir verkefnafulltrúi, Aasa Charlotta Ingerardóttir ljósmyndari, Steingrímur Karlsson stjórn heimildamyndarinnar “Sagan á bakvið Söguna” um Miðbaugs- minjaverkefnið Friðrik Þór Friðriksson framleiðandi.

















Yfirlit



eldri fréttir