Fréttir

17.3.2014

Mælingar á umfangi tískuiðnaðarins á Íslandi hefjast í vor


Þórey Einarsdóttir (RFF), Halla Helgadóttir (Hönnunarmiðstöð), Margrét Flóvenz (KPMG) og Jón Arnar Óskarsson (KPMG) skrifa undir.

KPMG, Hönnunarmiðstöð Íslands og Reykjavik Fashion Festival skrifuðu undir samstarfssamning síðastliðinn föstudag, 14. mars. Samningurinn tekur til mælinga sem KPMG mun ráðast í, á umfangi tískuiðnaðarins á Íslandi.


KPMG mun vinna verkefnið í samstarfi við Hönnunarmiðstöð og Reykjavik Fashion Festival í vor og með haustinu verða kynntar tölur um umfang tískuiðnaðarins sem munu gefa góða sýn á stöðu geirans á Íslandi. Auk þess verða lagðar fram tillögur að úrbótum á umhverfi hönnunarfyrirtækja útfrá niðurstöðunum.

Væntingar standa til að þetta verkefni marki upphafið að markvissum og reglulegum mælingum á þessum geira auk þess að lagður verði grunnur að frekari mælingum á öðrum greinum hönnunar.

Samstarfið við KPMG er mikill fengur fyrir fyrirtækin á þessu sviði. Unnið hefur verið að því í Hönnunarmiðstöð í nokkur ár að reyna að auka mælingar á umfangi þessara greinar m.a. með því að fá Hagstofu Íslands til auka mælingar og skráningar á sviðinu. Það er mjög ánægjulegt þegar fyrirtæki vilja leggja ungum greinum lið með þessum hætti og þar með auka þekkingu og greiða aðgengi að mikilvægum upplýsingum sem nýta má þeim til framdráttar.

















Yfirlit



eldri fréttir