Menningarverðlaun DV voru afhent við hátíðlega athöfn í gær, 11. mars í Iðnó. Gláma Kím hlaut verðlaun í flokki arkiktúrs fyrir Háskólann á Akureyri og Guðmundur Jörundsson hlaut verðlaun í flokki hönnunar fyrir JÖR.. Hönnunarmiðstöðin óskar þeim innllega til hamingju!
Menningarverðlaun DV fyrir arkitektúr
Háskólinn á Akureyri
Arkitektar: Gláma Kím Arkitektar
Landslagsarkitektar: Landslag
Háskólinn á Akureyri er byggður við og utan um eldri byggingar að Sólborg sem þjónuðu upphaflega hlutverki dvalarheimilis. Verk-efnið er afrakstur opinnar samkeppni sem haldin var árið 1996. Eldri byggingar og umhverfi Sólborgar gefa tóninn fyrir fínlega og nákvæma nálgun þar sem rík áhersla hefur verið lögð smáatriði. Með nýbyggingunum er byggingareiningum raðað saman og þær tengdar í eina heild með glerjuðum tengigangi sem myndar fallegt flæði og heildrænt yfirbragð. Bygginguna einkennir mýkt og birta, uppljómun og víðsýni til allra átta sem hæfir menntasetri. Sérstaða verksins er vönduð vinnubrögð og vel hugsuð framkvæmd þar sem hugað er að tengingu eldri og nýrri byggingarhlut. Háskólinn á Akureyri er tilnefndur í annað sinn til menningarverðlauna DV en nú hefur verið lokið við fimmta og síðasta áfanga byggingarinnar og þykir svo vel staðið að verki að ríkt tilefni er til.
Dómnefnd:
Borghildur Sölvey Sturludóttir, formaður, arkitekt FAÍ
Helgi Steinar Helgason, arkitekt FAÍ
Baldur Ólafur Svavarsson, arkitekt FAÍ
Þau verk og arkitektar sem tilnefnd voru í flokki arktitektúrs voru Háskólinn á Akureyri eftir Glámu Kím í samvinnu við Landslag Sæmundargarðar eftir Hornsteina, Göngu- og hjólabrýr yfir Geirsnef eftir Tröð í samvinnu við Snøhetta, Fellastígur eftir Skyggni frábært og Hannesarholt eftir ARGOS í samvinnu við Reyni Vilhjálmsson.
Nánari upplýsingar um tilnefningarnar hér.
Menningarverðlaun DV fyrir hönnun
JÖR by Guðmundur Jörundsson
JÖR er hugarfóstur Guðmundar Jörundssonar fatahönnuðar en hann stofnaði fyrirtæki utan um hönnunina ásamt vini sínum Gunnari Erni Petersen. Fyrirtækið setti á markað herralínu með klassískum fatnaði og skóm fyrir rúmu ári. Í kjölfarið var opnuð verslun á Laugavegi og á Reykjavík Fashion Festival 2013 var dömulína frumsýnd. Fatamerkið JÖR hefur á undraskjótum tíma náð ákveðinni forystu í íslenskum tískuheimi og er Guðmundur Jörundsson brautryðjandi fyrir karlkyns fatahönnuði á Íslandi í dag.
Dómnefnd:
Tinni Sveinsson, blaðamaður og vefstjóri Vísis, formaður.
Hörður Kristbjörnsson, stofnandi og grafískur hönnuður hjá Döðlum.
Þeir hönnuðir og verkefni sem tilnefnd voru í flokki hönnunar voru Þórunn Árnadóttir fyrir PyroPets, Linda Árnadóttir fyrir Scintilla, Guðmundur Jörundsson fyrir JÖR, Annetta Scheving fyrir Reykjavík í hnotskurn og Tinna Gunnarsdóttir fyrir Ljóshyrninga.
Nánari upplýsingar um tilnefningarnar hér.