Fréttir

10.3.2014

Samkeppnisúrslit | Skipulag og hönnun Geysissvæðisins



Úrslit í hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Geysissvæðisins í Haukadal liggja nú fyrir. Alls bárust 14 tillögur og var dómnefnd samhljóma þegar koma að því að velja vinningstillöguna en það tillaga Landmótunar sf.
Sýning á öllum innsenndum tillögum er nú á Geysi í Haukadal.

1. verðlaun
Tillaga Landmótunar sf. hlaut fyrstu verðlaun en hópinn skipa Einar E. Sæmundsen, landslagsarkitekt FÍLA, Guðrún Ragna Yngvarsdóttir, arkitekt, Jóhann Sindri Pétursson meistaranemi í landslagsarkitektúr, Lilja K. Ólafsdóttir, landslagsarkitekt FÍLA og Yngvi Þór Loftsson landslagsarkitekt FÍLA í samstarfi við Argos arkitekta, Grétar Markússon arkitekt FAÍ, Stefán Örn Stefánsson arkitekt FAÍ og Einar Ásgeir E. Sæmundsen landslagsarkitekt FÍLA. Ráðgjöf veitti Gagarín ehf., margmiðlunarstofa.

2. verðlaun

Arkiteó: Magdalena Sigurðardóttir arkitekt, Hulda Sigmarsdóttir arkitekt og Einar Ólafsson arkitekt FAÍ.

3. verðlaun
Arkís arkitektar ehf. Birgir Teitsson arkitekt FAÍ og Sara Axelsdóttir arkitekt en ráðgjafar við tillögugerð voru þeir Hermann Ólafsson landslagsarkitekt FÍLA og Guðjón L. Sigurðsson lýsingahönnuður PLDA.

Í áliti dómnefndar um vinningstillögu segir „að heildarlausn er vel útfærð og að tillagan leysi vel þær forsendur sem lagt var upp með. Lega stíganna er raunhæf og til þess fallinn að mynda gott flæði. Upplifunarstígum og útsýnispöllum er vel fyrirkomið. Sjónlínum er haldið hreinum og er aðgangur opnaður að fleiri hverum.“

Vonir standa til þess að verðlaunaðar hugmyndir verði nýttar í áframhaldandi vinnu við gerð heildarskipulags fyrir svæðið og að hefja megi uppbyggingu á svæðinu á grundvelli þeirrar vinnu.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti Bláskógabyggð styrk til þess að efna til samkeppninnar sem var haldinn í samvinnu við landeigendur Geysissvæðisins. Samkeppnin fór fram í samvinnu við Arkitektafélag Íslands.

Formaður dómnefndar var Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og aðstoðarforstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins. Aðrir í dómnefnd voru Birgir Þröstur Jóhannsson arkitekt FAÍ, Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi, fulltrúi Bláskógabyggðar, Sigurður Másson fulltrúi Landeigendafélags Geysis ehf og Ulla Rolfsigne Pedersen landslagsarkitekt FÍLA. Drífa Kristjánsdóttir oddviti Bláskógabyggðar var ritari dómnefndar.

Nú stendur yfir sýning á tillögum samkeppninnar á Geysi en tillögurnar verða einnig sýndar í Reykjavík um eða eftir páska og í tengslum við sýningu þar verður haldinn rýnifundur á vegum AÍ.
















Yfirlit



eldri fréttir