Menningarverðlaun DV verða afhent þriðjudaginn 11. mars í Iðnó. Þau verk og arkitektar sem tilnefnd eru í flokki arktitektúrs eru Háskólinn á Akureyri eftir Glámu Kím í samvinnu við Landslag Sæmundargarðar eftir Hornsteina, Göngu- og hjólabrýr yfir Geirsnef eftir Tröð í samvinnu við Snøhetta, Fellastígur eftir Skyggni frábært og Hannesarholt eftir ARGOS í samvinnu við Reyni Vilhjálmsson.
Dómnefnd:
Borghildur Sölvey Sturludóttir, formaður, arkitekt FAÍ
Helgi Steinar Helgason, arkitekt FAÍ
Baldur Ólafur Svavarsson, arkitekt FAÍ
Háskólinn á Akureyri
Arkitektar: Gláma Kím Arkitektar
Landslagsarkitektar: Landslag
Háskólinn á Akureyri er byggður við og utan um eldri byggingar að Sólborg sem þjónuðu upphaflega hlutverki dvalarheimilis. Verk-efnið er afrakstur opinnar samkeppni sem haldin var árið 1996. Eldri byggingar og umhverfi Sólborgar gefa tóninn fyrir fínlega og nákvæma nálgun þar sem rík áhersla hefur verið lögð smáatriði. Með nýbyggingunum er byggingareiningum raðað saman og þær tengdar í eina heild með glerjuðum tengigangi sem myndar fallegt flæði og heildrænt yfirbragð. Bygginguna einkennir mýkt og birta, uppljómun og víðsýni til allra átta sem hæfir menntasetri. Sérstaða verksins er vönduð vinnubrögð og vel hugsuð framkvæmd þar sem hugað er að tengingu eldri og nýrri byggingarhlut. Háskólinn á Akureyri er tilnefndur í annað sinn til menningarverðlauna DV en nú hefur verið lokið við fimmta og síðasta áfanga byggingarinnar og þykir svo vel staðið að verki að ríkt tilefni er til.
Sæmundargarðar
Arkitektar: Hornsteinar
Sæmundargarðar er hverfi nýrra stúdentaíbúða í næsta nágrenni við Háskóla Íslands. Húsin eru byggð inn í deiliskipulag fyrir þetta svæði sem markar umfang og yfirbragð þessarar nýju byggðar. Verkefnið var hlutskarpast í lokuðu alútboði eftir opið forval. Byggingarnar fylgja þeirri kvöð að kallast á við húsin í Oddagötu en ágætlega hefur tekst til og smáatriði eru vel heppnuð. Skipulag íbúðanna er til fyrirmyndar svo og aðgengi, þá eru byggingarnar í góðu samræmi við háskólasamfélagið og falla vel inn í það. Vel hefur tekist til að skapa fjölbreytni í útlitum þrátt fyrir þröngan fjárhagsramma. Byggingarnar marka ákveðin tímamót í byggingu íbúða til handa námsmönnum og eru hvatning til verkkaupa að halda áfram á þessari braut.
Göngu- og hjólabrýr yfir Geirsnef
Arkitektar: Teiknistofan Tröð - Landslagsarkitektar: Snøhetta
Göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa eru velheppnað samstarfsverkefni við Vegagerðina. Verkefnið var hlutskarpast í opinni samkeppni. Mannvirkið sjálft er frumlegt og sterkt kennileiti sem hefur sannað gagn sitt fyrir höfuðborgarbúa og hvetur til útivistar á svæðinu. Nú þegar hafa Reykvíkingar nýtt sér mannvirkin í miklum mæli miðað við þann fjölda gangandi, hlaupandi og hjólandi sem fer þar um. Ásýnd brúnna breytist undir mismunandi sjónarhornum, grunnform burðarvirkis ýkir þann breytileika. Efnisnotkun og form burðarvirkis brúnna hafa skírskotun í umhverfi og sögu staðarins. Miklar andstæður einkenna umhverfið, viðkvæmt lífríki Elliðaárósa og gróft iðnaðarhverfi. Tilurð Geirsnefs ber vott um litla virðingu fyrir einstakri náttúru, sem var nýtt sem urðunarstaður meðal annars fyrir bílhræ á kostnað fuglavarps. Göngu- og hjólabrýrnar eru tákn um breytta tíma og vistvænan samgöngumáta. Áhugaverð og skemmtileg upplifun á hjólaleið um Geirsnef gerir hjólreiðar að valkosti þeirra sem eiga erindi milli bæjarhluta vestan og norðan Elliðaáa. Áhugaverð hönnun á alla kanta.
Fellastígur
Arkitektar: Skyggni frábært
Rannsókn og hugmyndavinna unnin í samstarfi við nemendur Fellaskóla
Arkitektastofan Skyggni frábært og nemendur Fellaskóla eiga heiðurinn af nýjum og bjartari stíg sem liggur á milli blokkanna við Þórufell og Kötlufell í Breiðholti. Markmiðið með framkvæmdunum var að bæta aðgengi að stígnum, sem og að gera hann bjartari bæði að degi sem nóttu. Framkvæmdin var hugvitssamleg og til þess fallin að bæta líf allra íbúa í grenndinni. Færðir voru hlutar af forsteyptum veggjum frá suðurhlið stígsins yfir á norðurhliðina. Þá var bætt við ljósastaurum og gluggalausir gaflar blokka við Unufell og Torfufell lýstir upp. Þar sem stígurinn er hvað breiðastur á að skapa torgstemningu, bekkir eru við stíginn og umhverfið á að fegra með gróðri.
Reykjavíkurborg á heiður skilinn með því að trúa á verkefnið og hleypa því í framkvæmd. Ungmenni tóku virkan þátt í verkefninu og því að móta eigið umhverfi. Umbætur á Fellastíg er mikilvægt, samfélagslegt verkefni sem sjaldgæft er að komist í framkvæmd þar sem lokuð útboð eru meginlínan. Traustið sem borgin sýnir er lofsvert og til eftirbreytni.
Hannesarholt
Arkitektar: ARGOS
Landslagsarkitekt: Reynir Vilhjálmsson
Hannesarholt við Grundarstíg 10 var opnað almenningi á árinu eftir gagngera endurnýjun. Húsið var byggt árið 1915 fyrir Hannes Hafstein, fyrsta ráðherra Íslands, í kjölfar brunans mikla í Reykjavík. Húsið teiknaði Benedikt Jónasson verkfræðingur og þykir það um margt ólíkt öðrum húsum í Reykjavík þeirra tíma. Um er að ræða voldugt, tvílyft steinhús með svokölluðu mansardþaki. Auk endurnýjunar og viðhalds hönnuðu arkitektar verkefnisins viðbyggingu í beinni tengingu við kjallar hússins. Hún hefur að geyma 100 fermetra, fjölnota sal sem ætlaður er til fyrirlestra og tónlistarflutnings. Vel hefur tekist til við útfærsluna enda hafa arkitektarnir sótt ríkan innblástur úr gamla húsinu. Verkefnið er dæmi um velheppnaða endugerð á húsi sem er mikilvægt í íslenskri arkitektasögu auk þess að sýna fram á að hægt er að byggja við gömul hús á auðmjúkan en jafn framt nútímalegan hátt.