Dómnefnd:
Tinni Sveinsson, blaðamaður og vefstjóri Vísis, formaður.
Hörður Kristbjörnsson, stofnandi og grafískur hönnuður hjá Döðlum.
Þórunn Árnadóttir
Þórunn Árnadóttir hefur á örfáum árum stimplað sig inn sem einn mest spennandi vöruhönnuður Íslands. Þórunn vakti athygli strax við útskrift úr vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2007 með Sasa klukkunni sem mælir tímann í perlum. Í framhaldsnámi sínu í London hélt hún áfram að geta sér gott orð og hljóta alþjóðlegar viðurkenningar fyrir áhugaverðar vörur. Í fyrra kynnti Þórunn vörulínuna Berg á HönnunarMars í samstarfi við Brúnás Innréttingar. Hún tryggði versluninni Geysi nafnbótina Jólagluggi ársins 2013 með gluggaskreytingu þar sem jólakötturinn var settur í hlutverk tískulöggu. Í vetur hrinti hún einnig af stað söfnun á Kickstarter til að koma hinum snjöllu kisukertum, eða PyroPets, í framleiðslu. Kertin hafa vægast sagt slegið í gegn hjá áhugafólki um hönnun úti um allan heim og voru margfalt fleiri pöntuð en þurfti til að koma framleiðslunni af stað.
Scintilla
Linda Árnadóttir rekur hönnunarfyrirtækið Scintilla. Fyrirtækið framleiddi til að byrja með textíllínu fyrir heimili en hefur fært út kvíarnar í gegnum árin. Einnig er fáanlegur margs konar heimafatnaður frá Scintilla, svo sem náttföt og sloppar. Þá hefur Linda einnig búið til þrjár gerðir af ilmkertum sem hún þróaði út frá vestfirskri náttúru. Í vetur sýndi Linda einnig línu af speglum með sandblásnum munum í Spark Design Space sem vöktu mikla athygli, enda fantaflottir. Speglarnir eru framleiddir hjá Glerverksmiðjunni Samverki á Hellu, elstu starfandi glerverksmiðju landsins. Vörur Scintilla vekja jafnan mikla athygli og er hægt að þekkja þær á hinum grafíska munsturheimi sem Linda hefur þróað síðastliðin 15 ár.
JÖR by Guðmundur Jörundsson
JÖR er hugarfóstur Guðmundar Jörundssonar fatahönnuðar en hann stofnaði fyrirtæki utan um hönnunina ásamt vini sínum Gunnari Erni Petersen. Fyrirtækið setti á markað herralínu með klassískum fatnaði og skóm fyrir rúmu ári. Í kjölfarið var opnuð verslun á Laugavegi og á Reykjavík Fashion Festival 2013 var dömulína frumsýnd. Fatamerkið JÖR hefur á undraskjótum tíma náð ákveðinni forystu í íslenskum tískuheimi og er Guðmundur Jörundsson brautryðjandi fyrir karlkyns fatahönnuði á Íslandi í dag.
Reykjavík í hnotskurn
Reykjavík í hnotskurn eða Reykjavík Details er ljósmyndabók eftir Annettu Scheving. Bókin veitir nýja sýn á Reykjavík og beinir ljósi að litlu atriðunum í borgarmyndinni sem blasa ekki jafnan við. Upphaflega ætlaði Annetta að gera bók um skilti í borginni en verkið vatt upp á sig. Í fjögur ár gekk hún kerfisbundið um götur miðborgarinnar og tók myndir. Afraksturinn er skemmtileg skrásetning af grafík, leturtýpum, arkitektúr, handverki og öðrum smáatriðum sem fólk tekur jafnan ekki eftir á ferð sinni um borgina.
Tinna Gunnarsdóttir
Tinna Gunnarsdóttir hefur í um áratug verið einn fremsti hönnuður landsins. Hún hefur getið sér gott orð bæði hérlendis og erlendis fyrir hönnun sína og eftir hana liggja fjölmargar vörur sem hafa slegið í gegn og prýða heimili landsins. Á HönnunarMars í fyrra kynnti Tinna til sögunnar óvenjulegan borðlampa í samvinnu með Lumex. Hann nefnist Ljóshyrningur og gefur frá sér milda, óbeina lýsingu. Ljóshyrningur er glæsileg viðbót í höfundarverk þessa hæfileikaríka hönnuðar.