Sýningar íslenskra fatahönnuða á Reykjavik Fashion Festival 2014 fara fram laugardaginn 29. mars frá kl. 11 til 19 í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu, í Silfurbergi. RFF er hluti af dagskrá HönnunarMars sem fer fram dagana 27. - 30. mars 2014.
Miðasalan fer fram á harpa.is og kostar miðinn 11.990kr.
Reykjavík Fashion Festival var stofnað árið 2009 og er hátíðin frábær vettvangur fyrir hæfileikaríka íslenska fatahönnuði til að kynna og sýna hönnun sína. Markmið RFF er að markaðssetja og vekja athygli á íslenskri fatahönnun og þeirri þróun og tækifærum sem í henni felast. Fjöldi erlendra og innlendra fjölmiðla ásamt starfandi fólki í tískuiðnaðinum víðs vegar úr heiminum er boðið á hátíðina og gefst þeim tækifæri til að upplifa einstaka íslenska hönnun og kynnast hönnuðunum sjálfum. Hátíðinni er einnig ætlað að veita áhugafólki innsýn í spennandi heim íslenskrar tísku.
Hátíðin verður haldin samhliða HönnunarMars sem verður dagana 27. til 30. mars 2014. Sýningarhönnuðurnir Wolfram Glatz og Valentin Lüdicke hjá Atelier Kontrast setja upp tískusýningarnar í ár líkt og árið 2013, sjá
www.atelierkontrast.com.
Reykjavík Fashion Festival (RFF) kynnir með stolti þá hæfileikaríku hönnuði sem koma til með að sýna hönnun sína á hátíðinni í ár.
CINTAMANI
Cintamani hefur löngum verið þekkt sem eitt vinsælasta útivistarmerki landsins. Allt frá árinu 1996 hefur það séð til þess að Íslendingar séu klæddir í takt við hina ófyrirsjáanlegu veðráttu landsins. Cintamani er ekki einungis útivistarfatnaður, hann er ekki síður flottur götuklæðnaður. Í dag leggur Cintamani áherslu á fagurfræðileg gildi og hannar fatnað fyrir fólk sem meðvitað er um fallega hönnun og tísku.
ELLA
Framleiðslufyrirtækið ELLA var stofnað árið 2011 og hefur á stuttum tíma skapað sér sterka ímynd sem vandað, hágæða slow-fashion merki. Að baki ELLA stendur Elínrós Líndal ásamt hópi hæfileikaríkra kvenna sem saman hafa það að markmiði að hanna hágæða nútímakvenfatnað með nærgætni við umhverfið í huga. Einkunnarorð ELLA eru gæði, ábyrgð og virðing sem skilar sér í vönduðum klassískum fatnaði fyrir konur sem vita hvað þær vilja.
Farmers Market
Farmers Market er íslenskt hönnunarfyrirtæki sem stofnað var árið 2005 af þeim Bergþóru Guðnadóttur hönnuði og eiginmanni hennar Jóel Pálssyni tónlistarmanni. Í gegnum árin hefur merkið skapað sér fastan sess á íslenskum markaði. Innblástur er sóttur í ræturnar; hina einstöku íslensku arfleifð þar sem menn og dýr hafa lifað í sambýli við harðger náttúröfl öldum saman.
JÖR by Guðmundur Jörundsson
Tískufyrirtækið JÖR var stofnað seinni hluta árs 2012 en Guðmundur Jörundsson er útskrifaður fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands. Árið 2013 sýndi JÖR by Guðmundur Jörundsson sína fyrstu kvenfatalínu auk þess að opna verslun sína í miðborg Reykjavíkur. Má segja að fyrirtækið hafi svo sannarlega slegið í gegn á síðasta ári og hafa margir klæðst fatnaði frá JÖR á opinberum vettvangi.
magnea
Magnea Einarsdóttir er ungur og upprennandi fatahönnuður sem hefur vakið verðskuldaða athygli undanfarið. Magnea lauk námi í fatahönnun með áherslu á prjón frá hinum virta skóla Central Saint Martins í Bretlandi árið 2012. Flíkur Magneu eru að miklu leyti handgerðar úr efnum á borð við ull og gúmmí og er því mikil vinna sem liggur að baki hverri flík. Flíkurnar eru einfaldar í sniðum þar sem smáatriði í textílnum gefa skemmtilegt yfirbragð.
REY
Rebekka Jónsdóttir er hönnuðurinn á bak við fatamerkið REY. Rebekka útskrifaðist sem fatahönnuður frá Fashion Institute of Design and Merchandising í Los Angeles árið 2008 og stofnaði REY ári síðar. Fatamerkið REY leggur mikið upp úr heiðarleika og gæðum með það að markmiði að skapa flíkur sem eru í senn tímalausar og fágaðar. Mikil áhersla er lögð á gæði í efnisvali auk klæðskerasaums sem endurspeglast í klassískum flíkum sem standast tímans tönn.
Sigga Maija
Sigga Maija er nýstofnað fatamerki Sigríðar Maríu Sigurjónsdóttur en hún útskrifaðist sem fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 2011 en síðan þá hefur hún starfað sem aðstoðarkennari við skólann. Haustið 2012 fór hún til Parísar í starfsnám hjá tískuhúsi Sonia Rykiel og hefur starfað sem aðstoðarhönnuður hjá Kron by KronKron og starfað sjálfstætt hjá JÖR by Guðmundur Jörundsson. Margir bíða spenntir eftir að sjá hennar fyrstu fatalínu líta dagsins ljós á RFF 2014.
ZISKA
Harpa Einarsdóttir er hönnuður og eigandi Ziska. Harpa lauk námi frá Listaháskóla Íslands árið 2005 en síðan þá hefur hún tekið þátt í fjölda skapandi verkefna. Hún var tilnefnd til norrænu Code hönnunarverðlaunanna fyrir hönnun og persónusköpun í tölvuleiknum EVE Online og stóð uppi sem sigurvegari í Reykjavík Runway hönnunarkeppninni árið 2011. Harpa hefur hannað fatalínur fyrir fyrirtækin E-Label og Gallerí 17 en hún sækir innblástur sinn meðal annars til íslenskrar náttúru.