Fréttir

20.2.2014

Umbúðahönnun 2014



Oddi og Félag íslenskra teiknara (FÍT) standa að opinni hönnunar­samkeppni fyrir mat­væla­umbúðir úr kartoni, bylgju­­pappír og/eða mjúku plasti. Keppnin er opin öllum, án endur­gjalds. Starfs­fólk hjá stórum sem smáum hönnunar­fyrirtækjum og auglýsinga­stofum er sérstak­lega hvatt til að senda inn tillögur.

Viðfangsefnið er matvælaumbúðir

Viðfangsefnið er matvæla­umbúðir, hvort heldur fyrir óunnið hráefni eða full­unna vöru á föstu eða fljót­andi formi. Matvara, sælgæti, drykkir ... hvaðeina kemur til greina. Lögð verður áhersla á framleiðsluhæfi og notagildi umbúða, einnig efnisnotkun og umhverfisvænar lausnir. Nánari upplýsingar eru veittar á keppni@oddi.is.

Skil á keppnisgögnum

Beiðni um keppnisgögn skal senda á keppni@oddi.is með upplýsingum um nöfn, netföng og símanúmer þátttakenda. Allar tillögur sem berast verða númeraðar með sérstöku raðnúmeri og er því full nafnleynd á innsendu efni gagnvart dómnefnd. Frjálst er að senda fleiri en eina tillögu inn í keppnina. Tillögur mega ekki hafa verið framleiddar áður.

Framleiðslumöguleikar

Allar innsendar tillögur verða skoðaðar með fram­leiðslu­mögu­leika í huga og kynntar sérstaklega fyrir viðskiptavinum Odda á sviði umbúðaframleiðslu. Samið verður sérstaklega við höfunda, ef til framleiðslu kemur. Tillögurnar skulu, að hluta eða í heild, miða við það hráefni sem keppnishaldarar leggja til.

Skilafrestur er 17. mars

Tillögum skal skila á rafrænu formi, í síðasta lagi mánudaginn 17. mars fyrir miðnætti. Öllum tillögum skal fylgja einfalt sýnishorn í samræmi við skilyrði í keppnisgögnum.

Verðlaun

1. verðlaun  100.000 kr. í peningum og 200.000 kr. prentinneign hjá Odda
2. verðlaun  75.000 kr. í peningum og 100.000 kr. prentinneign hjá Odda
3. verðlaun  50.000 kr. í peningum og 50.000 kr. prentinneign hjá Odda

Út fyrir boxið

Aukaverðlaun, 100.000 kr. prentinneign hjá Odda, verða veitt þeirri tillögu sem sýnir fram á framsækna, nýja eða óvenjulega nálgun á notkun umbúða.
















Yfirlit



eldri fréttir