Hönnunarsjóður Auroru kynnir nýtt verkefni á sviði byggða- og íbúðaþróunar í samstarfi við Hönnunarmiðstöð, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, Félagsbústaði, Búseta og Félagsstofnun stúdenta. Verkefnið ber nafnið Hæg Breytileg átt og er vettvangur þverfaglegrar vinnu sem hefur að markmiði að kalla fram hugmyndir er varpa ljósi á vistvænni, samfélagsmeðvitaðri, hagkvæmari og framsæknari íbúðarkosti í íslensku þéttbýli.
Auglýst er eftir þátttakendum, en stefnt er að ráðningu þriggja til fimm þverfaglegra hópa, sem hver hefur á að skipa fjórum til sex einstaklingum. Sóst er eftir ungum, efnilegum og framsæknum: hönnuðum, arkitektum og listamönnum, einstaklingum úr viðskipta-, tækni- og iðngreinum, hugvísindum og raunvísindum, til að takast á við húsnæðisáskorun framtíðarinnar. Miðað er við að í hverjum hópi séu einn til tveir arkitektar og tveir til fimm einstaklingar úr öðrum greinum. Sérstaklega verður hugað að því að veita fólki með stuttan starfsferil að baki tækifæri.
Umsóknarfrestur er til og með 21. febrúar 2014, en verkefnið hefst formlega 11. mars og stendur yfir í 4 mánuði.
Áhugasamir eru hvattir til að senda inn umsókn á netfangið:
info@haegbreytilegatt.is.
Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu verkefnisins
haegbreytilegatt.is