Fréttir

28.1.2014

Einkennismerki Náttúruminjasafns Íslands hefur verið valið



Niðurstaða er fengin í samkeppni um einkennismerki Náttúruminjasafns Íslands sem auglýst var í desember og Hönnunarmiðstöð Íslands og Náttúrminjasafnið stóðu fyrir. Þátttaka var mjög góð og bárust alls 122 tillögur.


Dómnefndin var sammála um niðurstöðuna og hefur valið úr eina vinningstillögu. Vinningshafanum hefur verið gert viðvart en úrslit samkeppninnar verða kynnt opinberlega á aðalfundi Hins íslenska nátttúrufræðifélags sem haldinn verður laugardaginn 22. febrúar n.k. í fyrirsletrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Aðalfundurinn verður auglýstur sérstaklega síðar. Samkeppnin var öllum opin en veitt verða ein verðlaun að upphæð 1.000.000 kr. fyrir bestu tillöguna.

Dómnefnd skipuðu:

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands
Árni Hjartarson, formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags
Birna Geirfinnsdóttir, grafískur hönnuður, fagstjóri LHÍ
Rósa Hrund Kristjánsdóttir, grafískur hönnuður, Hvítahúsið
Einar Gylfason, grafískur hönnuður, Leynivopnið

Um Náttúruminjasafn Íslands

Náttúruminjasafn Íslands er eitt af þremur höfuðsöfnum landsins ásamt Þjóðminjasafni Íslands og Listasafni Íslands og starfar samkvæmt safnalögum nr. 106/2001 og lögum nr. 35/2007 um Náttúruminjasafn Íslands. Hlutverk Náttúruminjasafnsins er að varpa ljósi á náttúru landsins, náttúrusögu, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd, auk þess að varpa ljósi á samspil manns og náttúru og á náttúru landsins í alþjóðlegu samhengi. Náttúruminjasafnið skal annast kynningu með sýningum og annarri fræðslustarfsemi, veita öðrum náttúruminjasöfnum ráðgjöf, stuðla að samvinnu og vinna að samræmdri safnastefnu á sviði náttúrufræða. Rætur Náttúruminjsafnsins má rekja aftur til níunda áratugar 19. aldar þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað, en eitt meginmarkmið félagsins var „að koma upp sem fullkomnustu náttúrugripasafni á Íslandi, sem sé eign landsins og geymt í Reykjavík.“ Um sögu Náttúruminjasafnsins má lesa nánar á heimasíðu Náttúruminjasafnsins (nmsi.is) og Hins íslenska náttúrufræðifélags (hin.is).
















Yfirlit



eldri fréttir