Hálendið, heilnæm fæða, fiskinet og íslenski þjóðfáninn eru meðal þess efniviðs sem hönnuðir sækja innblástur í við sköpun sína fyrir HönnunarMars í ár. Íslenskir hönnuðir og arkitektar bera þungann af hátíðinni, líkt og endranær og ber dagskráin keim af þeim taumlausa sköpunarkrafti sem einkennir íslenskt samfélag.
Hér gefur að líta glefsur úr þeirri fjölbreyttu dagskrá sem fram fer á HönnunarMars 2014.
RFF - Reykjavík Fashion Festival
Reykjavík Fashion Festival verður haldin í fimmta sinn en hátíðin er einstakur vettvangur fyrir íslenska fatahönnuði. Markmið RFF er að markaðssetja og vekja athygli á íslenskri fatahönnun og þeirri þróun og tækifærum sem í henni felast. Sjö íslenskir hönnuðir koma til með að sýna á Reykjavík Fashion Festival í ár. Þeir eru
Cintamani,
Ella,
Farmers Market,
JÖR by Guðmundur Jörundsson,
Magnea Einars,
REY og Sigga Maija.
Skjótum upp fána
Eitt hundrað ár eru liðin síðan formleg fánanefnd, skipuð Ráðherra Íslands leitaði til almennings eftir hugmyndum að nýjum þjóðfána. Ári síðar var þjóðfáni Íslendinga samþykktur og hefur verið í notkun frá þeim degi.
Hörður Lárusson, grafískur hönnuður fer nú fyrir óformlegri fánanefnd og kallar eftir tillögum frá almenningi að nýjum þjóðfána. Tillögurnar verða teiknaðar og sýndar á HönnunarMars 2014.
TULIPOP Teiknismiðja
Tulipop slær upp teiknismiðju fyrir krakka á öllum aldri þar sem hægt er að skyggnast inn í sköpunarferlið á bakvið hinn heillandi ævintýraheim Tulipop og litríku persónurnar sem þar búa. Signý Kolbeinsdóttir, yfirhönnuður Tulipop, mun leiða teiknismiðjuna og aðstoða krakka við sína eigin sköpun og teikningar.
Pantið áhrifin
Veitingastaðurinn Satt mun fara í frí á HönnunarMars og í staðinn opnar farandsveitingastaðurinn Pantið áhrifin í fyrsta sinn. Pantið árifin er hugmyndafræðilegur veitingastaður þar sem máltíð er valin út frá þeim áhrifum sem hún getur haft á líkamann. Matur seður ekki aðeins hungrið heldur getur heilnæmt fæði fyrirbyggt ýmsa sjúkdóma, haft græðandi áhrif og létt lundina. Gestir velja sér forrétt, aðalrétt og eftirrétt út frá þeim áhrifum sem þeir helst kjósa. Á boðstólnum verða m.a. beinstyrkjandi, sjónskerpandi og hjartabætandi réttir.
STAKA
Hvað ef á hálendi Íslands væri að finna áður óþekktan ættbálk sem ætti ættir sínar að rekja til helstu söguhetja Íslendingasagnanna?
María Kristín Jónsdóttir, vöruhönnuður skoðar hvernig ættbálkurinn sækir innblástur frá harðgerðri og óspilltri náttúrunni við gerð fylgihluta. Vörulínan hefur að geyma fylgihluti úr leðri fyrir bæði kynin.
Innblástursglóð
Hráefni og þekking heimamanna á Austurlandi var innblástursglóð verkefnis sem kynnt verður í Sparki á HönnunarMars. Verkefnið er unnið af alþjóðlegu teymi hönnuða sem heimsótti Austurland og vann m.a. með þara, steina, hreyndýrahorn og net. Hönnuðurnir eru Julia Lohmann frá Þýskalandi,
Max Lamb frá Bretlandi og
Þórunn Árnadóttir frá Íslandi. Markmiðið er að kanna möguleika til smáframleiðslu á svæðinu. Fyrstu eintök verkefnisins verða til sýnis og sölu í
Sparki á HönnunarMars.