Hönnuðirnir Friðrik Steinn Friðriksson og Laufey Jónsdóttir báru sigur úr býtum í samkeppni um einkenni HönnunarMars 2014. Sigurtillagan er innblásin af „thaumatrope” vinsælu leikfangi frá Viktoríutímanum og retro raftækjum.
Einkenni HönnunarMars í ár samanstendur af grafík, ljósmyndum og myndbandi. Hugmyndafræðin að baki einkennisins á rætur sínar að rekja til þess krafts sem býr í hönnun og endurspeglast í hátíðinni sjálfri. Þar má sjá samspil þvert á greinar og samtal milli þeirra sem skapa og þeirra sem skoða. Afrakstur hönnunarteymisins er „thaumatrope”, miðill sem veldur þeirri sjónblekkingu þegar tvær myndir renna saman í eina.
„Blómstrandi blóm er kjarni einkennisins en það vísar til hátíðarinnar sem vorboða og vekur upp hugrenningatengsl við vorið, hið nýja upphaf. Á opnun HönnunarMars gengur nýtt hönnunarár í garð. HönnunarMars blómstrar þegar Reykjavík skríður undan vetrarfeldinum og blómin blómstra í hvítu rými sem knúin eru áfram af landslagi tækja. Tækin eru afbyggð, skelin fjarlægð og eftir situr kjarninn sem knýr samruna lita og forma blómanna,” segir í tilkynningu frá Friðriki og Laufeyju.
Hönnuðir einkennis
Friðrik Steinn Friðriksson, vöruhönnuður lauk nýverið MFA-gráðu í upplifunarhönnun frá Konstfack listaháskólanum í Stokkhólmi. Í verkum sínum skoðar Friðrik hinar ýmsu skynjanir, hvort sem þær eru hlut- eða huglægar.
Laufey Jónsdóttir er fatahönnuður og starfaði hjá tískufyrirtækinu STEiNUNN um nokkurra ára skeið. Laufey hefur auk þess hannað fatnað undir eigin merki sem ber hetið Blik. Samhliða fatahönnun hefur hún gert myndskreytingar í bækur, tímarit og fyrir sýningar.
Grafísk ráðgjöf
Arnar Freyr Guðmundsson
Ljósmyndun, kvikmyndataka og klipping
Hrafn Jónsson
Tónlist og hljóðvinnsla
Kristinn Evertsson
Myndvinnsla
Jón Ingiberg Jónsteinsson