Fréttir

19.2.2014

Calvin Klein flytur erindi á DesignTalks



Bandaríski fatahönnuðurinn, Calvin Klein mun flytja erindi á „DesignTalks“ fyrirlestrardegi Hönnunarmiðstöðvar á HönnunarMars þann 27. mars næstkomandi. Calvin Klein ætti að vera flestum kunnugur en hann hefur um árabil verið einn fremsti fatahönnuður og ilmvatnsframleiðandi heims.

Í erindi sínu á fyrirlestrardeginum í Hörpu mun hann m.a. fjalla um stefnumótun og aðferðir á ólíkum stigum starfsferils síns og mikilvægi samvinnu þvert á hönnunargreinar.

Calvin Klein stofnaði fyrirtækið Calvin Klein Inc. ásamt æskuvini sínum árið 1968. Frá stofnun hefur fyrirtækið verið leiðandi afl í tískuheiminum og táknberi fyrir einfaldleika og fágun. Auk fatnaðar, framleiðir fyrirtækið ilmvötn og húsbúnað. Í nálgun sinni leggur Klein áherslu á að hanna nýja hluti sem hæfa nútímamanninum og heimili hans. Calvin Klein er meðal þekktusu vörumerkja heimsins og er virði merksins metið á yfir 7 miljarða bandaríkjadollara.

Dagskrá fyrirlestrardagsins í ár er óvenju glæsileg en auk Calvin Kleins koma fram Robert Wong hjá Google Creative Lab, Kathryn Firth, arkitekt og hönnunarstjóri hjá London Legacy Development Corporation, Mikael Schiller, stofnandi sænska fatamerkisins Acne Studios og Marco Steinberg, fyrrum stjórnandi Helsinki Design Lab.

Dagskrárstjórn er í höndum Hlínar Helgu Guðlaugsdóttur, hönnuðar, listræns stjórnanda og kennara við Konstfack í Stokkhólmi. Fundarstjóri er Stephan Sigrist frá svissnesku hugveitunni W.I.R.E. og Hlín Helga Guðlaugsdóttir.

Þetta er einstakur viðburður sem enginn áhugamaður um hönnun eða arkitektúr ætti að láta framhjá sér fara.

Hægt er að nálgast miða á fyrirlestrardaginn á harpa.is og midi.is. Frekari upplýsingar um dagskrá má finna á honnunarmars.is

Hér má finna viðburðinn á Facebook.

Fyrirlestradagurinn er haldinn í samstarfi við Ameríska sendiráðið.

Mynd: Steven Klein, © 2013, Allur réttur áskilinn.
















Yfirlit



eldri fréttir