Fréttir

7.1.2014

Sýningin Approach opnar í Ráðhúsi Reykjavíkur



Föstudaginn 10. janúar kl. 17 mun Sendiherra Noregs á Íslandi Dag Wernø Holter opna sýninguna APPROACH eða NÁLGUN í Ráðhúsi Reykjavíkur. Sýningin er samsýning þriggja norskra listakvenna, þeirra Solveigar Ovanger, Ingridar Larssen og Cecilie Haaland.

Solveig, Ingrid og Cecilie sem allar vinna í ólík hráefni byrjuðu að vinna saman fyrir rúmum tveimur árum. Þær koma frá mismunandi svæðum í Noregi, Solveig býr í Tromsø, Ingrid í Vesterålen og Cecilie í Lofoten.

Þær sækja innblástur sinn til mannlegra samskipta, í menninguna og undur náttúrunnar. Þær hafa allar sterkar tilfinningar til hafsins og endurspeglast það í listsköpun þeirra fyrir þessa sýningu.

Solveig Ovanger vinnur með leður og roð. Hún hefur mikinn áhuga á styrk- og teygjanleika mismunandi leðurgerða og vinnur með það í verkum sínum.

Ingrid Larssen
vinnur að mestu leyti í textíl. Hún notar vöfflusaum á silki organza og leitast við að ná fram viðkvæmum, gegnsæjum og þyngdarlausum áhrifum í verkum sínum.
Ingrid Larssen hefur áður sýnt á Íslandi en árið 2006 sýndi hún einstakt hálsskart í Reykjavík og á Skriðuklaustri.

Cecilie Haaland hefur unnið með leir og postulín frá árinu 1989 en undanfarið einnig með ljósmyndun. Hún tekur myndir með kassamyndavél (pinhole camera) sem búin er til úr leirkrús. Hún hefur sérstakan áhuga á umskiptunum sem verða frá þrívíðum hlut yfir í tvívíðan.

Reykjavík er þriðji viðkomustaður sýningarinnar en í fyrra var sýningin sett upp í Pétursborg og Arkhangelsk í Rússlandi. Sýningin stendur til 9. febrúar og er opin á opnunartíma Ráðhússins í Reykjavík.

Samstarfsaðili á Íslandi er HANDVERK OG HÖNNUN en sýningin er styrkt af Norska utanríkisráðuneytinu, Aðalræðismanni Noregs í Pétursborg, BarentsKult, Norske Kunsthåndverkere og Norrænu menningargáttinni.
















Yfirlit



eldri fréttir