Fréttir

6.12.2013

Góð aðsókn að kynningu á íslenskri byggingarlist í Belgíu



Um 200 manns sóttu viðburð tileinkuðum íslenskum arkitektúr sem haldinn var í Gent 5. desember s.l. Viðburðurinn var skipulagður af sendiráði Íslands í Belgíu í samstarfi við arkítektasamtökin Archipel.


Tveir íslenskir arkitektar héldu utan og fluttu erindi um íslenskan arkitektúr. Annars vegar Pétur Ármannsson sem er þekktur af skrifum sínum og rannsóknum á sögu íslenskrar byggingarlistar á 20. öld gaf yfirlit um þá sögu í erindi sínu. Hins vegar flutti Sigurður Einarsson, einn af stofnendum Batterísins Arkítekta erindi um hönnun Hörpu og annarra verðlaunaverkefna arkítektastofunnar, m.a. í Noregi. En Harpa er hönnuð af arkitektastofu Henning Larsen í Danmörku, í samvinnu við Batteríið á Íslandi og Stúdíós Ólafs Elíassonar í Berlín.

Þetta var fjórði viðburðurinn í norrænni fyrirlestraröð um arkitektúr, Nordic Architecture on Tour, sem er samstarfsverkefni norrænna sendiráða og menningamiðstöðva í Belgíu ásamt belgískum stofnunum og samtökum á sviði arkitektúrs. Tilgangur verkefnisins er að kynna norræna byggingarlist í Belgíu.

Dagana 12. og 13. desember fer fram lokahátíð fyrirlestraraðarinnar í Brussel þar sem heimildarmynd um byggingu Hörpu sem nefnist Harpa – From Dream to Reality eftir Margréti Jónasdóttur verður sýnd.
















Yfirlit



eldri fréttir