Reykjavik Fashion Festival, RFF auglýsir eftir fatahönnuðum til þátttöku í hátíðinni sem haldin verður samhliða HönnunarMars, dagana 27.-30. mars 2014. Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti 13. desember 2013.
RFF hefur verið haldið árlega síðan 2009 og verið helsti kynningarviðburður íslenskrar fatahönnunar. Markmiðið er að markaðsetja íslenska fatahönnun og vekja athygli á þeirri þróun og tækifærum sem í henni felast.
Fjöldi erlendra og innlendra fjölmiðla ásamt starfandi fólki í tískuiðnaðinum er boðið á hátíðina og gefst þeim tækifæri til að upplifa og kynna sér íslenska fatahönnun ásamt því að kynnast hönnuðunum sjálfum. Hátíðinnni er einnig ætlað að veita áhugafólki innsýn í spennandi heim íslenskrar tísku.
RFF 2014 verður haldið í Tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu og hentar einkar vel þeim hönnuðum sem hafa áhuga á að sýna „ready-to-wear” línur sínar á sýningarpöllum (runway) fyrir yfir 650 áhorfendur.
Hér má nálgast umsóknareyðublað Reykjavik Fashion Festival sem verður aðgengilegt til miðnættis 13. desember en þá rennur fresturinn út. Öllum umsóknum verður svarað með tölvupósti fyrir áramót. Líklegt þykir að færri munu komast að en vilja en val hönnuða til þátttöku í Reykjavík Fashion Festival verður í höndum fagráðs RFF.