Fréttir

9.12.2013

Samkeppni um einkennismerki Náttúruminjasafns Íslands



Náttúruminjasafn Íslands og Hönnunarmiðstöð Íslands standa fyrir samkeppni um hönnun á nýju einkennismerki fyrir Náttúruminjasafn Íslands. Samkeppnin er öllum opin en veitt verða ein verðlaun að upphæð 1.000.000 kr. fyrir bestu tillöguna. Samið verður sérstaklega við vinningsahafa um frekari útfærslu. Skilafrestur tilagna er til 15. janúar 2014.

Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði náttúrufræða og sinnir rannsóknum, fræðslu og upplýsingamiðlun um náttúru landsins, náttúrusögu og nýtingu náttúrauðlinda. Viðfangsefnin eru fjölbreytt; jarðfræði og jarðsaga, myndun og mótun lands, efna- og eðlisþættir, fjölbreytileiki lífríkis allt frá smæstu örverum til stærstu dýra jarðar, og vistfræðilegt samspil. Einkennismerkið skal endurspegla hlutverk Náttúruminjasafnsins og vísa til náttúru landsins í víðri merkingu, einkenna hennar og eða sérkenna. Yfir einkennismerkinu skal vera reisn og af því skal stafa virðing sem hæfir höfuðsafni. Merkið skal nýtast á margvíslegan hátt í kynningarefni, á skilti, prentað og rafrænt. Merkið þarf að vera áhugavert, einkennandi og auðvelt í notkun í öllum miðlum.

Náttúruminjasafn Íslands stendur á ákveðnum tímamótum um þessar mundir. Stofnunin var sett á laggirnar árið 2007 en síðastliðið rúmt ár hefur starfsemin legið niðri að mestu leyti, eða þar til í september þegar nýr forstöðumaður tók til starfa. Þá hillir loks undir, eftir ríflega aldarlanga bið, að þjóðin eignist sýningaraðstöðu sem hæfir höfuðsafni landsins í náttúrufræðum, en það er Perlan í Öskjuhlíð.

Verðlaunafé

Veitt verða ein verðlaun að upphæð 1.000.000 kr. fyrir bestu tillöguna. Samið verður sérstaklega við vinningsahafa um frekari útfærslu.
Keppnin er öllum opin.

Umsóknarferli

Tillögum skal skila í lokuðu umslagi merktu dulnefni í Hönnunarmiðstöð Íslands, Vonarstræti 4b, 101 Reykjavík, fyrir kl. 12.00, miðvikudaginn 15. janúar 2014. Í umslaginu skal vera annað lokað umslag merkt dulnefni en inni í því þarf rétt nafn hönnuðar, heimilisfang og sími að koma fram. Tillögum skal skila útprentuðum á A3 blaði í lit (hámark 2 síður). Tillögur skulu einnig fylgja með á diski með pdf-skjölum. Ekki er hægt að tryggja að keppendur fái tillögur sínar afhentar að keppni lokinni.

Dómnefnd skipa:

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands
Árni Hjartarson, formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags
Birna Geirfinnsdóttir, grafískur hönnuður, fagstjóri LHÍ
Rósa Hrund Kristjánsdóttir, grafískur hönnuður, Hvítahúsið
Einar Gylfason, grafískur hönnuður, Leynivopnið

Með afhendingu á tillögu í samkeppni, telst þátttakandi samþykkja dómnefnd og keppnisgögn og að hann muni virða niðurstöðu dómnefndar. Farið verður með öll gögn sem trúnaðarmál. Dómnefndin áskilur sér rétt til að hafna öllum tillögum.

Keppnisritari

Ritari keppninnar er Haukur Már Hauksson. Fyrirspurnir þurfa að berast fyrir 1. desember 2013 á veffangið samkeppni@honnunarmidstod.is. Öllum spurningum verður svarað og svörin birt á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvar www.honnunarmidstod.is þann 5. desember 2013.

Um Náttúruminjasafn Íslands

Náttúruminjasafn Íslands er eitt af þremur höfuðsöfnum landsins ásamt Þjóðminjasafni Íslands og Listasafni Íslands og starfar samkvæmt safnalögum nr. 106/2001 og lögum nr. 35/2007 um Náttúruminjasafn Íslands. Hlutverk Náttúruminjasafnsins er að varpa ljósi á náttúru landsins, náttúrusögu, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd, auk þess að varpa ljósi á samspil manns og náttúru og á náttúru landsins í alþjóðlegu samhengi. Náttúruminjasafnið skal annast kynningu með sýningum og annarri fræðslustarfsemi, veita öðrum náttúruminjasöfnum ráðgjöf, stuðla að samvinnu og vinna að samræmdri safnastefnu á sviði náttúrufræða. Rætur Náttúruminjsafnsins má rekja aftur til níunda áratugar 19. aldar þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað, en eitt meginmarkmið félagsins var „að koma upp sem fullkomnustu náttúrugripasafni á Íslandi, sem sé eign landsins og geymt í Reykjavík.“ Um sögu Náttúruminjasafnsins má lesa nánar á heimasíðu Náttúruminjasafnsins (nmsi.is) og Hins íslenska náttúrufræðifélags (hin.is).

Nánari upplýsingar er að finna á vefslóðinni www.honnunarmidstod.is.

Spurningar og svör


1) Er leyfilegt að senda inn nokkrar tillögur á sama nafni?

Já, keppendur mega gjarnan senda inn fleiri en eina tillögu. Tillögur skulu þó vera aðgreindar hvor annari, þ.e. á aðskildum blöðum.
















Yfirlit



eldri fréttir