Íslenska fatahönnunarfyrirtækið YZ Creation var valið til þáttöku í Creative Business Cup (CBC) í Kaupmannahöfn eftir kynningu þeirra á viðskiptahugmynd fyrirtækisins á Fjárfestingaþingi Arion banka í sumar. YZ Creation samanstendur af tveimur fatahönnuðum, Ýr Þrastardóttur og Hörpu Einarsdóttur og viðskiptafræðingi, Hrefnu Björk Sverrisdóttur. CBC er heimsmeistarakeppni fyrir skapandi frumkvöðla, í keppninni eru þátttakendur frá 50 löndum sem allir hafa unnið frumkvöðlakeppni í sínu heimalandi.
í Creative Business Cup eru allar tegundir skapandi frumkvöðla að keppa, hvort sem það eru hugbúnaðarforrit, tækninýjungar eða hönnun. Þetta er í annað sinn sem Ísland keppir í þessari keppni en í fyrra tók guitarparty þátt fyrir Íslands hönd.
YZ Creation var valið til þáttöku eftir að fyrirtækið kynnti viðskiptahugmynd sína á Fjárfestingaþingi Arion banka í sumar vegna þáttöku þeirra í Startup Reykjavík á vegum Klak Innovit. Hugmynd YZ Creation var valin inn í Startup Reykjavík af 210 innsendum hugmyndum. En tíu fyrirtæki voru valin til þáttöku í verkefninu í sumar og styrkti Arion Banki verkefnið.
Hugmynd YZ Creation byggir á því að hanna og þróa nýjar útfærslur á breytilegum fatnaði fyrir konur á aldrinum 25-45. Hver og ein flík getur umbreyst yfir í annað form með því að parta af flíkinni eða bæta við nýjum. YZ Creation hannar nýjar lausnir fyrir nútíma konur sem vilja geta samnýtt vinnufatnað og kvöldklæðnað í einni og sömu flíkinni.
Creative business Cup fer þannig fram að hóparnir hitta fagaðila í viðskiptum, markaðssetningu og vöruþróun sem hjálpa þeim að slípa til viðskiptahugmyndina. Hóparnir kynna að lokum hugmyndirnar sínar fyrir dómurum sem eru allir tengdir frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun.
Tilgangur keppninnar er að frumkvöðlarnir kynnist áhrifavöldum í viðskiptaheiminum og fái innsýn inn í þann stóra heim sem frumkvöðlastarf er. Einnig gefst þátttandum kostur á að hitta fjölda fagfjárfesta og fá tækifæri til þess að kynna viðkomandi viðskiptahugmynd fyrir þeim.
Keppnin fer fram í Kaupmannahöfn dagana 18. – 20. Nóvember 2013.
YZ Creation samanstendur af tveimur fatahönnuðum, Ýr Þrastardóttur og Hörpu Einarsdóttur og viðskiptafræðingi, Hrefnu Björk Sverrisdóttur.