Fréttir

13.11.2013

Restaurant Day í Reykjavík og sýningarlok í Sparki



Sýning á veggspjöldum eftir Sigga Eggertsson lýkur laugardaginn 16. nóvember í Sparki að Klapparstíg 33. Innsetningin byggir á átta veggspjöldum sem hægt er að raða saman á ótal vegu. Áhrifin eru vægast sagt hugvíkkandi. Sama dag verða Restaurant day viðburðir í Sparki. Blaðsíða 16 í Stínu stórusæng og Tea Sir / SMAKK á vegum Attikatta.

Siggi Eggertsson er fæddur árið1984. Átján ára hóf hann nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Hann fluttist til London strax að námi loknu og starfaði þar uns hann fluttist Berínar árið 2008.

Árið 2006 valdi tímaritið Print Magazine Sigga sem eina af helstu vonarstjörnum hönnunar undir 30 ára aldri. 2008 var hann valinn besti hönnuðurinn af New York Art Directors Club's Young Guns og 2012 hlaut hann hin virtu gullverðlaun The Art Directors Club of Europe Awards (The ADC*E Awards). Hann hefur starfað meðal annars fyrir Nike, Microsoft, H&M, Stüssy, Norton, Playstation, Coca Cola, Nokia og New York Times. Veggspjöldin eru til sölu í Sparki. Opið virka daga frá kl. 12.00 - 18.00. Laugardaginn 16. nóvember er opið til 17.00.

Frekari upplýsingar má finna á www.sparkdesignspace.com



Restaurant Day er haldinn 4 sinnum á ári og þá getur hver sem vill opnað veitingastað í einn dag og auglýst hann í gegnum Restaurant Day vefsamfélagið.

Skemmst er að minnast heimsóknar Timo Santala, stofnandi hins alþjóðlega Restaurant Day en Timo kom til landsins í tilefni af alþjóðlegu ráðstefnunni You Are In Control sem haldin var í Reykjavík í sjötta sinn dagana 28. – 30. október 2013 í Bíó Paradís. Í tengslum við ráðstefnuna voru haldnar Resturaurant Day vinnusmiðjur í Hönnunarmiðstöðinni.

Hér má finna yfirlit yfir alla þá veitingastaði sem opna víða um heim á næsta Restaurant Day, laugardaginn 16. nóvember.

Blaðsíða 16 í Stínu stórusæng
Á degi íslenskrar tungu þótti við hæfi að bjóða upp á gómsætustu blaðsíðuna úr bókinni Stína stórasæng eftir Lani Yamamoto. Stína er hugmyndarík uppfinningastelpa. Henni er alltaf kalt og er stöðugt að nota ímyndunaraflið til að halda á sér hita. Hún bakar yndislegar kökur og býr til heitt súkkulaði. Fyrir 500 kr. getur þú stigið inn í bókina og smakkað á kræsingunum.

Tea Sir / SMAKK
Í kjallaranum á SPARKI verður á boðstólum Melrósate í grænum félagsskap. Þema staðarins er sprottið frá hinni margrómuðu bresku "high tea" hefð (ekki Heidí, hún var austurrísk). Í boði verður te, egg og gúrkuréttir af ýmsum toga í anda laxarétta frú Stellu Löve. Langskorin, þverskorin, umskorin, hökkuð, maukuð, laukuð, í límónaði, í köku, í rimlum, í strimlum, og í sneiðum. Te í hlaupi, tekökur, te smákökur, te búðingur, te töfraduft, hollustu te, og margt margt fleira. Mætið með klink 10-50-100 kr peninga nema að þið ætlið að skella ykkur á hinn óviðjafnanlega sjöþúsund króna silfur stungna gúrku rétt eða 22 þúsund króna tebollann þá er betra að stinga í vasann nýju 10.000 kr seðlunum.



Efri mynd: Siggi Eggertsson í Spark Design Space. Ljósmyndari: Valgarður Gíslason
Miðjumynd: úr bókinni Stína Stórasæng eftir Lani Yamamoto, bls. 16.
Neðsta mynd: Hanna Dís Whitehead fyrir Tes Sir viðburðinn
















Yfirlit



eldri fréttir