Fréttir

12.11.2013

Tillaga VA arkitekta hlutskörpust í samkeppni um viðbyggingu Sundhallarinnar



Í dag, þriðjudaginn 12. nóvember voru kynntar niðurstöður dómnefndar í hönnunarsamkeppni um viðbyggingu og útisundlaug ásamt pottum og vatnsleiksvæði fyrir börn við Sundhöll Reykjavíkur. 1. verðlaun hlaut tillaga VA arkitekta.

Heba Hertervig FAÍ, Karl Magnús Karlsson FAÍ og Ólafur Óskar Axelsson FAÍ mynduðu hönnunarteymi VA Arkitekta. „Aðlögun að Sundhöllinni er einstaklega vel heppnuð þar sem gagnsæ viðbygging myndar skemmtilegt mótvægi við þyngra yfirbragð Sundhallarinnar,“ segir m.a. í dómnefndarniðurstöðu.

Dómnefnd var skipuð fulltrúum Reykjavíkurborgar og Arkitektafélags Íslands: Nikulás Úlfar Másson, skrifstofustjóri, USK, formaður dómnefndar, Sólveig Valgeirsdóttir, forstöðumaður, ÍTR, Guðrún Arna Gylfadóttir, forstöðumaður, ÍTR, Guðmundur Kr. Guðmundsson, arkitekt FAÍ, tilnefndur af AÍ og Birgir Teitsson, arkitekt FAÍ, tilnefndur af AÍ.

Allar tillögur sem dómnefndin tók til umfjöllunar eru til sýnis í Borgartúni 14 næstu tvær vikurnar.
 
Önnur verðlaun komu í hlut samstarfshóps þriggja arkitekta en í honum eru Agnes Nilsson, Andrea Tryggvadóttir, og Guðný Arna Eggertsdóttir.

Þriðju verðlaun fékk samstarfs tveggja arkitektastofa Kurt og pí og T.ark, en í þeim hópi eru arkitektarnir Ásmundur Hrafn Sturluson, Steinþór Kári Kárason, Anja Schröter, Ásgeir Ásgeirsson, Hlín Finnsdóttir og Michael Blikdal Ericsen.

Rýnifundur 20. nóvemver kl. 16
Miðvikudaginn 20. nóvember, klukkan 16:00 verður haldinn rýnifundur um niðurstöður dómnefndar í hönnunarsamkeppni um viðbyggingu og útisundlaug ásamt pottum og vatnsleiksvæði fyrir börn við Sundhöll Reykjavíkur. Fundurinn verður í Borgartúni 14 þar sem nú hangir uppi sýning á innsendum tillögum.
















Yfirlit



eldri fréttir